Friðrik Stefánsson fyrirliði úrvalsdeildarliðs Njarðvíkur og miðherji íslenska landsliðsins er á leið í hjartaaðgerð á næstu dögum. Frá þessu er greint á vef Víkurfrétta. Hann mun því ekki leika með Njarðvíkingum í undanúrslitum Powerade-bikarkeppninnar í kvöld gegn Snæfell.„Ég fer í aðgerð um miðja næstu viku en ég veit svo sem ekki nákvæmlega hvað er að mér. Þetta lýsir sér með þeim hætti að ég fæ mjög öran hjartslátt og síðan líður yfir mig. Ég hélt í fyrstu að þetta væri ofþornun eða eitthvað álíka en eftir leik gegn ÍR um s.l. helgi fór ég á spítala og lét rannsaka þetta betur,” sagði Friðrik við mbl.is nú rétt í þessu.
„Í kjölfarið fór ég beint í rannsóknir og hjartalæknirinn sem hefur skoðað mig að undanförnu vonast til þess að ég geti farið að spila fljótlega eftir þessa aðgerð,” sagði Friðrik í dag en er 31 árs gamall.
Nánar verður rætt við Friðrik í Morgunblaðinu á morgun.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst