Það var öllu rólegra hjá lögreglu í vikunni sem leið en síðust tvær vikur á undan. Hins vegar hafði lögreglan í ýmsu að snúast að vanda við að aðstoða borgarana og halda uppi lögum og reglu.
Ein eignaspjöll voru tilkynnt til lögreglu um helgina en gestur veitingastaðarins Lundans varð eitthvað ósáttur við að vera vísað út og lét skap sitt bitna á rúðu í veitingastaðnum þannig að hún brotnaði.
Tveir ökumenn voru stöðvaðir í síðustu viku vegna gruns um ölvun við akstur og hafa þá fimm ökumenn verið staðnir að akstri undir áhrifum áfengis á undanförnum þremur vikum sem verður að teljast mikið miðað við stað eins og Vestmanneyjar.
Fyrra tilvikið átti sér stað að kvöldi 1. október sl. en við eftirlit lögreglu var ökumaður stöðvaður á Friðarhafnarbryggju vegna hraðaksturs. Þegar lögreglan hafði tal af ökumanninum vaknaði grunur um að hann væri undir áhrifum áfengis við aksturinn og var hann því færður á lögregustöðina í þágu rannsóknar málsins.
Seinna tilvikið átti sér stað undir kvöld þann 5. október sl. en þá var lögreglu tilkynnt um að bifreið hafi lent utanvega á Hamarsvegi, vestan Dverghamars. Þarna hafði ökumaður bifreiðarinnar misst stjórn á akstrinum með þeim afleiðingum að bifreiðin lenti utan vega og valt a.m.k. eina veltu. Ökumanninn og farþega sem var í bifreiðinni sakaði ekki en bifreiðin er töluvert skemmd. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis við aksturinn.
Í sl. viku var sami ökumaður stöðvaður í tvígang fyrir akstur án réttinda á bifhjóli auk þess sem hjólið var óskráð og ótryggt. Í öðru tilvikinu hafði ökumaðurinn sett skráningarmerki af léttu bifhjóli á bifhjólið sem hann var stöðvaður á. Þá var annar ökumaður stöðvaður á léttu bifhjóli og hafði sá ekki réttindi til að aka hjólinu auk þess sem hjólið var óskráð og ótryggt. Báðir þessir ökumenn eru 15 ára.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst