Skjót viðbrögð þegar einn björgunarmanna hneig niður vegna hjartaáfalls
26. október, 2007

SKIPVERJAR skipa í Reyðarfjarðarhöfn brugðust skjótt við í fyrrinótt þegar einn þeirra féll niður á milli skips og bryggju. Ekki var hann fyrr kominn upp á bryggjuna en sá þeirra sem lengst hafði reynt að ná honum upp hneig niður vegna hjartaáfalls.

“Það kemur bara peyi til okkar seint um nóttina og kallar að það sé maður milli skips og bryggju. Þá fórum við nokkrir þeim til aðstoðar,” segir Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey VE-444. Skipið hafði komið til Fjarðabyggðar í Reyðarfirði seint um kvöldið og lá þar ásamt nokkrum fleiri skipum frá Vestmannaeyjum. Birgir fór ásamt þremur öðrum skipverjum að þeim stað þar sem maðurinn hafði dottið niður á milli skips og bryggju. Þar hékk maðurinn nokkuð þrekaður í fríholtum, dekkjum sem hanga utan á bryggjunni, en félagi hans lá á bryggjukantinum og hélt honum uppi.

Voru kraftlausir

Sú hætta skapast alltaf þegar menn lenda í þessum aðstæðum að skipið þrýstist að bryggjunni í sjógangi með hræðilegum afleiðingum fyrir þann sem lendir á milli. Á þessum tíma í fyrrinótt var hins vegar tiltölulega stillt veður inni í höfninni. Birgir segir augljóst að mennirnir tveir hafi verið búnir að bíða nokkra stund eftir aðstoð. Báðir hafi verið þreyttir að sjá og höfðu ekki krafta til að koma þeim sem féll niður í öryggi.

Lítið pláss var milli skipsins og bryggjunnar og afar þröng aðstaða fyrir menn að athafna sig.

Skipverjar á Vestmannaeyinni og fleiri menn, sem dreif að, ýttu skipinu frá. Einn skipverjanna fór ofan í sjóinn og lyfti manninum upp og menn á bryggjunni tóku á móti honum og drógu hann upp.

Ekki var öllu lokið enn því átökin höfðu reynt verulega á þann sem haldið hafði manninum uppi í langan tíma. “Hann var orðinn svo þrekaður að hann hneig bara út af eftir að við vorum búnir að ná hinum upp,” segir Birgir. “Við fundum engan púls á honum þannig að við hófum bara hjartahnoð og hringdum á Neyðarlínuna.” Tókst að koma hjarta mannsins til að slá að nýju en stuttu síðar hneig hann aftur út af. Þegar sjúkraflutningamenn bar að hafði aftur tekist að koma hjartslætti mannsins af stað. Voru báðir mennirnir fluttir á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað og heilsast þeim vel, eftir því sem næst verður komist.

Skipin frá Vestmannaeyjum voru hins vegar veðurteppt það sem af var gærdeginum enda mikið hvassviðri. Þegar rætt var við Birgi í gær vildi hann lítið gera úr atburðarásinni. Viðbrögð allra þeirra sem bar að bryggjunni um nóttina hefðu verið fumlaus og atburðarásin hefði tekið skamma stund. Fréttavefur Morgunblaðsins ræddi við yfirlögregluþjóninn á Eskifirði vegna málsins í gær og sagði hann ljóst að hætta hefði verið á ferðum og mannslífi hefði verið bjargað.

Morgunblaðið í dag

Skoða blaðið á netinu
Forsida 12 Tbl 2024
12. tbl. 2024
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst