Jæja, ég hef ekkert látið heyra í mér í tvær vikur núna, eða ekki síðan ég var í Berlín. Berlín var helvíti skemmtileg alveg, frábær ferð og alveg gjörsamlega þessara 95 evra virði. Okkur gafst samt voðalega lítill tíma til að skoða okkur um borgina eins og við ætluðum okkur, svo túristapakkinn verður að bíða þar til maður fer næst. En þetta var ekta skólaferðalag, maður kynntist skólafélögum sínum vel og skemmti sér konunglega með þeim í þessa tvo daga sem maður var þarna.
Ég ætla nú ekkert að fara út í neinar frekari lýsingar á ferðinni (getið lesið nánar um ferðina í orðum Kára og Andra Eyvinds á svartilistinn.com), en ég get allavega sagt ykkur að ferðin endaði á því að einn nemandi endaði á sjúkrahúsi með áfengiseitrun og Rússinn í bekknum okkar endaði í klóm lögreglunnar eftir slagsmál við einn af Ameríkönunum í skólanum okkar. Kalda stríðið greinlega ekki liðið undir lok á öllum vígvöllum.
Annars er lífið bara asskoti ljúft. Manni er hætt að líða eins og túrista hérna, farinn að falla betur inn í samfélagið og farinn að finnast maður vera orðinn hluti af þessari stórfurðulegu senu sem Amsterdam hefur fram að bjóða. Nú líður mér mikið meira eins og ég eigi heima hérna heldur en mig gerði til að byrja með, enda allt vesen og vandræði úr vegi og aðlögunartíminn hefur runnið sitt skeið.
Ég fékk loksins fataskápinn minn á mánudaginn sl. Ekki búinn að bíða nema fimm vikur eftir honum! Eftir agalega fyrirhöfn, sem innihélt ófáar ferðir niður í Jysk (sama og Rúmfatalagerinn heima á Íslandi) þar sem ég keypti skápinn, fékk ég loksins upp úr þeim símanúmerið hjá flutningafyrirtækinu sem átti að hafa sótt dótið mitt þann 8. október frá vörugeymslu þeirra hjá Jysk (ég pantaði skápinn þann 26. september). Ég hringi í þá og þeir segjast ekki vera með það sem ég átti pantað í bókunum hjá sér. Ég skelli á. Fæ svo hringingu 5 mínútum seinna: “Heyrðu, við litum yfir þetta einu sinni enn og fundum dótið þitt. Það kom bara til okkar í gær”. Kjaftæði! Jysk segir flutningafyrirtækið ábyrgt fyrir þessu rugli og flutningafyrirtækið segir auðvitað að Jysk eigi alla sökina á þessu. Auðvitað vill enginn taka ábyrgðina á slíku klúðri. Ég nennti ekki standa í frekari þvættingi yfir þessu og lét málið bara kyrrt liggja.
Ég er allavega búinn að fá skápinn minn og nú er þetta loksins orðið eins og hjá mönnum hérna hjá mér; ekki föt og ferðatöskur út um öll gólf. Snyrtilegt og fínt bara. Vantaði reyndar eitt stykki í skápinn þegar ég var að skrúfa hann saman, sem varð til þess að mælirinn fylltist. Ég fór niðreftir til þeirra enn eina ferðina, fékk stykkið sem mig vantaði og sór þess eið að versla aldrei aftur við þá skítasamsteypu sem Jysk er.
Og meira hef ég fengið undanfarið, því við fengum einmitt MacBook fartölvur í síðustu viku frá skólanum. MacBook tölva er innifalin í námsgjaldinu. Á þessar tölvur er okkur ætlað að vinna flest verkefnin okkar, taka glósur og þess háttar. Sannkallaður ferðafélagi námsmannsins, lítil og nett tölva sem passar nánast í rassvasann á manni. Þeir sem þekkja mig eitthvað vita nú samt að ég haft óbeit á Mökkum svokölluðum. Ég var hálfpartinn neyddur til að vinna á einn slíkan þegar ég var í Margmiðlunarskólanum á sínum tíma, upplifun sem ég vil meina að eigi stóran þátt í því að hárið á mér sé orðið eins grátt og það er. En það hefur margt breyst við þessar Mac tölvur síðan þá og þetta er ekki eins slæmt og mig minnti að það hafi verið. En ég tek nú gamla góða Pésann fram yfir Mac í flestallri almennri tölvuvinnu, enda finnst mér Windows umhverfið mun þægilegra en Mac OS umhverfið. En þetta er jú auðvitað bara spurning um það hverju maður er vanur.
Í lokin vil ég svo taka það fram að hún systurdóttir mín hefur fengið nafnið Sophia Margo. Mjög fallegt nafn, heitir sem sagt millinafninu í höfuðið á ömmu sinni.
Andri Hugo bloggar á www.andrihugo.com
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst