Ástæðan fyrir því að ég nefni þessa bók er sú að ég hef verið að lesa skemmtilegar pælingar eftir Doreen Virtue þar sem hún teflir fram því góða heilræði að við ættum ekki að dæma. Auðvitað vitum við þetta öll þrátt fyrir að þetta sé afar gott ráð. Ég held að við þekkum það öll bæði að vera dæmd og detta í þann forarpitt að dæma mann og annann! Ég held að það séu fáir sem komist í gegnum lífið án þess að dæma eða vera dæmdur. En það sem ég hafði svo gaman af var það hvernig þetta var sett upp. Hún benti á að við værum mjög mikið í því að dæma, við segðum t.d. „þessi stelpa er frábær“ , „þessi maður er magnaður íþróttamaður“ , „sá er nú ómerkileg manneskja“. Ég hafði svosem ekki pælt í þessu svona, að þegar ég teldi mig vera að tala um fólk á jákvæðan hátt að þá væri ég að dæma því fram að þessu þá fannst mér orðið dómur fela í sér neikvæða merkingu. En hvað á ég þá að segja? Ef ég breyti þessum dómum sem ég kom með hér á undan þá gæti ég sett þetta svona upp án þess að dæma þá getur þetta verið t.d. „þessi stúlka er með góða nærveru“, „þessi maður er að sýna árangur í íþróttum“ og „ég sækist ekki eftir nærveru þessa einstaklings“. Mér fannst þetta góð ábending sem vert er að skoða því einhverra hluta vegna þá hafði ég ekki gert mér grein fyrir því að ég væri að fella dóma um fólk jafnvel þó svo að ég segði eitthvað fallegt um það! Svo lengi lærir sem lifir sagði einhver einhverntíman.
Gangi okkur nú öllum vel að dæma hvorki okkur sjálf né aðra, að við fáum að fara í gegnum lífið með sýnilegum framförum án þess að við tökum gjörðir eða skoðanir annarra nærri okkur . Megum við vera umvafin frelsi, ást og kærleika.
Fríða Hrönn
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst