Verð ég á hóteli í ellinni?

Umræðan um að þjóðin okkar sé að verða eldri hefur skotið upp annað slagið undanfarin ár.  Sannarlega þörf umræða og góð.  Snýst umræðan gjarnan um það hvað eigi að gera við allt gamla fólkið, hvar það eigi að búa vegna núverandi húsnæðisvanda og á hverju það á að lifa.  Er þá vísað til þess vanda sem lífeyriskerfi landsmanna býr við, enda nú þegar fyrirhugað að hækka aldurstakmörk lífeyristöku.  Ætla ég ekki að fara djúpt í þá sálma hér, en gæti eytt í það allnokkrum línum á góðum degi.

Hinsvegar vil ég nú beina augum mínum að öllum þeim hótelbyggingum sem spretta upp eins og gorkúlur um landið.  Vonar undirritaður innilega að fjármögnun þeirra bygginga sé ekki byggð á sandi svo okkur og börnum okkar verði ekki sendur reikningurinn síðar, eins og í fyrri ævintýrum landans s.s. loðdýrarækt, fiskeldi og að ógleymdum timburmönnum bankahrunsins.

Það gæti gerst að hótelbyggingarnar sem nú spretta hér upp með slíkum hraða, verði síðar að yfirgefnum minnisvörðum gríðarlegs ferðamannastraums á eftirhrunsárunum er gengi krónunnar var haldið niðri með öllum ráðum í skjóli gjaldeyrishafta.  Það er vissulega ekki draumur nokkurs góðs og gegns íslendings, en verði sú sviðsmynd að veruleika felst mögulega í því lausn við húsnæðisvanda eldri borgara síðar og verði lífeyrissjóðir í vondri stöðu mun eldri borgarar flestir hvort eð er ekki hafa efni á mörgum fermetrum.

Pælingin er svosem til gamans gerð en þó er ekki laust við að maður sé farinn að renna hýru auga til nokkurra bygginga svona til vonar og vara.  Allavega er hér boðið uppá ókeypis viðskiptahugmynd sem gæti orðið að veruleika hjá lesanda góðum síðar. 

Öllum vanda geta jú fylgt ný tækifæri.

Nýjustu fréttir

Elliði Snær skoraði átta mörk í jafntefli Íslands
Fylgi flokkanna í Eyjum
Komu inn vegna veðurs
Afslættir hverfa með bættu raforkuöryggi
Jason Stefánsson meðal útskriftarnema FÍV 
Foreign Monkeys gefa út þriðju breiðskífu sína – „III“
Úttekt á fasteignagjöldum ársins
Mikil gróska í fimleikastarfi og mót framundan
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.