Ef þú þekkir mig, þá eru allar líkur á því að ég hafi logið að þér. Þú veist, ekki í neinni illgirni, bara þessi hefðbundna kurteisislega lygi sem maður kastar fram þegar maður fær spurninguna „hvernig hefur þú það?“ Annars er ég hætt að reyna að ljúga, bæði vegna þess að ég hef ekki samvisku í það og svo er mér líka sagt að það taki því ekki – það sé hægt að lesa mig eins og opna bók.
Þegar við erum í þannig félagsskap að geta talað um um lífið og tilveruna án þess að vera dæmd eða gagnrýnd, þá höfum við heldur enga þörf fyrir að ljúga. Við verðum þá einhvern vegin ófeimnari við að tjá okkur um allt það slæma sem okkur finnst við hafa gert í lífinu. Á undanförnum mánuðum hef ég fengið að heyra ansi magnaðar sögur af ýmsum helvítis-tímabilum.
Ég trúi á hið góða í fólki. Ég held að þegar við fylgjum hjartanu og gleðinni sem á þar heima, þá erum við besta útgáfan af okkur sjálfum. Ég held að við eigum þetta öll, þessa bestu útgáfu af okkur. Þú veist, þessa hlið okkar sem við erum svo hrikalega ánægð með og stolt af og gerir okkur kleift að líða ótrúlega vel með okkur sjálf. Sú hlið sem gerir það góða og rétta í stöðunni, þrátt fyrir að það sé oft bæði erfitt og óþægilegt. Sú hlið okkar sem biðst afsökunar þegar við höfum gert eitthvað rangt. Sú hlið okkar sem laðar líka fram það góða í öðrum.
Við eigum það hins vegar til að missa tengslin við þessa hlið okkar og gera hluti sem við erum hvorki stolt af eða sátt við. Stundum er þetta eitthvað smávægilegt sem maður hristir fljótlega af sér (fær kannski smá móral) en stundum er þetta eitthvað sem er það stórt að við finnum bókstaflega hvernig þær systur sektarkennd og skömm tæta upp sálartetrið. Ef maður er ekki á þeim stað að viðurkenna brot sitt og taka sig á, þá reynir maður að tækla samviskubitið með því að deyfa sig, með því að ljúga sig frá því eða reyna að réttlæta sig á allan mögulegan hátt.
Velkomin til helvítis.
Helvíti er staður sem ég þekki vel af eigin reynslu og það versta við dvölina þar var að ég áttaði mig ekki á hversu vondum stað ég var á, og hversu illa mér leið, fyrr en ég fór að fara þaðan. En ekki á meðan, því þá var ég nefnilega svo upptekin af því að réttlæta mig og verja gjörðir mínar og ákvarðanir.
Helvíti er staður þar sem maður stjórnast af óttanum; ótta við höfnun, ótta við missi, ótta við hvað fólki finnst og hvað það heldur um mann. Helvítisstaðurinn er líka fullur af pirringi, gremju og reiði út í það fólk sem okkur finnst vera að skipta sér af. Það virðist vera eitthvað í mannlegu eðli að þurfa að koma við í helvíti. Hversu löng dvölin þar verður, fer svo algerlega eftir því hversu lengi við neitum að horfast í augu við það sem við erum eftir fremsta megni að deyfa eða forðast.
Mitt persónulega helvíti var ótti við höfnun. Ég var svo hrædd við að vera ekki nóg, að vera hafnað, að ég gerði allt til þess að fólki líkaði við mig. Ég setti sjálfa mig til hliðar og gerði líf annarra mikilvægara en mitt eigið. Ég leyfði fólki að koma illa fram við mig því ég forðaðist eins og heitan eldinn að tækla neitt óþægilegt. Þegar manni bókstaflega verkjar í hjartað við átök eða ágreining, er svo miklu auðveldara að forðast allt vesen, gefa eftir og láta eins og allt sé í himnalagi. En það kostar það að maður týnir sjálfum sér.
Í helvíti eru margar vondar tilfinningar og það er eins og þær séu út um allt að reyna að tæta mann í vonleysi og vanlíðan. Maður gerir nánast allt til að deyfa sársaukann og flýja óþægindin sem eru allt í kring. Maður fer á tjúttið eða fær sér í glas til að líða aðeins betur. Maður leitar í mat eftir huggun, kaupir sér sífellt nýrri og flottari hluti eða leitar í daður eða jafnvel óviðeigandi sambönd til að leyfa rómantíkinni og spennunni deyfa í smá stund allar þessar óþægilegu tilfinningar og hugsanir.
Ég vissi alveg að fyrr eða síðar þyrfti ég að gyrða mig í brók og takast á við allt þetta óþægilega sem beið mín. En í dáldinn tíma var bara allt of þægilegt að fresta því aðeins lengur. Bara smá stund í viðbót. Helvítis tilfinningar.
Dagurinn sem ég áttaði mig á því að ég mig langaði að líða vel og vera um leið ánægð og stolt af sjálfri mér, var dagurinn sem ég yfirgaf helvítisstaðinn minn. Það var dagurinn sem ég ákvað að standa með sjálfri mér – þrátt fyrir erfiðleika, sársauka og vesen. Það var dagurinn sem innri átökin mín hættu, því ég vissi að ég var fyrst og fremst að brjóta á sjálfri mér. Sjálfsvirðingunni minni. Ég olli sjálfri mér vonbrigðum og það er svo sár tilfinning.
Að koma úr helvíti er eins og að vakna upp úr margra daga fyllerýi – með allri þeirri vanlíðan sem því fylgir. Maður þarf að setja allt þetta óþægilega upp á yfirborðið, horfast í augu við það sem maður hefur gert og fyrirgefa sjálfum sér. Dvölin mín þarna var samt ekki alslæm. Hún gerði mig að betri manneskju – allavega eftir á. Ég varð töluvert skilningsríkari á hegðun annarra, fúsari til að fyrirgefa og sjá að öll erum við einfaldlega mannleg.
Elsku þú. Ég vona svo innilega að dagurinn í dag verði sá dagur sem þú finnur í hjartanu þínu að þú átt skilið hreina, tæra og fallega hamingju. Að þú áttir þig á hversu blíður, góður og dásamlegur einstaklingur þú ert og að þú eigir af öllu hjarta skilið að líða vel með sjálfan þig.
Ég óska þess að í dag verði hjarta þitt fullt af gleði, stolti og ánægju yfir öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur. Að þú finnir hugrekki til að horfast í augu við það sem er gert og losir þig undan sektarkennd, skömm og ótta. Að þú fyrirgefir sjálfum þér. Að þú áttir þig á að við erum öll stöðugt að reyna að gera okkar besta, að stundum getum við bara ekki gert betur undir kringumstæðunum sem við erum í.
Að upplifa hreina og tæra hamingju – án allrar sektarkenndar – er hrikalega hoppandi-af-gleði-dásemdar-góð tilfinning og ég myndi svo gjarnan vilja að þú fengir að njóta hennar líka.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst