Færeyingar halda áfram að bora til hagsbóta fyrir hinar dreifðu byggðir. Nýjustu göngin munu liggja frá Gamlarætt á Straumey til Traðardals á Sandoy. Straumey er stærsta eyja Færeyja og er 372 km² að stærð. Á henni er höfuðborgin Þórshöfn.
Sjá einnig: Færeyingar okkur fremri
Sandoy-göngin verða fjórðu neðanjarðargöngin í Færeyjum og munu tengja eyjuna Sandoy við stærri hluta færeyskra innviða. Göngin verða 10,6 km löng. Lægsti punkturinn er 147 metra undir vatnsyfirborðinu og eins og Eysturoy-göngin, er mesti halli 5 prósent. Samkvæmt áætlun hefst verkið að reisa Sandoy-göngin nú í ár. Gert er ráð fyrir að verkefnið taki 5 ár, sem þýðir að Sandoy-göngin verða tilbúin árið 2023.
Ekki er um það deilt lengur hvort það sé hægt að byggja jarðgöng á milli lands og Eyja. Slík hefur framþróunin verið á undanförnum árum. Ásmundur Friðriksson, þingmaður vakti athygli á kostnaðartölum varðandi Landeyjahöfn og rekstur til ferju næstu áratugina. Þetta sagði Ásmundur árið 2015:
„Þegar menn skoða kostnaðinn af því að leggja jarðgöng til Vestmannaeyja og reka Herjólf frá Landeyjahöfn í 30 ár kemur í ljós að á 30 árum þyrfti að byggja tvær nýjar ferjur til Vestmannaeyja, sem er um 10 milljarða kostnaður. Framlag frá ríkissjóði í 30 ár er 30 milljarðar og sanddæling við höfnina 9 milljarðar. Þetta kostar um 50 milljarða á 30 árum en gera má ráð fyrir að jarðgöng kosti á bilinu 30–50 milljarða.”
Sjá einnig: 50 milljarðar á 30 árum
Um mitt ár 2015 var kostnaðurinn við Landeyjahöfn og smíði nýrrar ferju farinn að slaga hátt upp í kostnaðinn við gerð Hvalfjarðarganga. Í úttekt Viðskiptablaðsins um málið segir m.a:
„Ef ný ferja verður tilbúin árið 2018, sem er ekki ólíklegt, og kostnaðaráætlanir standa þá verður samanlagður kostnaður við smíði ferjunnar og hafnargerðarinnar kominn í tæpa 11,5 milljarða króna. Til að setja þá tölu í eitthvað samhengi þá nam heildarkostnaður við gerð Hvalfjarðarganga ríflega 4,6 milljörðum króna árið 1996. Uppreiknað miðað við vísitölu byggingarkostnaðar er heildarkostnaðurinn 13,7 milljarðar.”
Ofangreint var til umfjöllunar fyrir fjórum árum. Í dag má gera ráð fyrir að kostnaðurinn sé kominn yfir eitt stykki Hvalfjarðargöng.
Sandoy er sjötti stærsti byggðarkjarninn í Færeyjum með um 1240 íbúa. Minnt er á að íbúar í Vestmannaeyjum voru 4319 í september sl.
Er nema vona að spurt sé hvort ekki sé rétt að fara að skoða þessi mál af fullri alvöru? Það hlýtur að vera þjóðhagslega hagkvæmt!
Þessu tengt: Búið að dýpka fyrir tæpa 2,6 milljarða
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst