„Við í Safnahúsi leitum stöðugt nýrra leiða til að koma fjölbreyttri sögu okkar Eyjamanna á framfæri frá mismunandi sjónarhornum og á sem margvíslegastan hátt.” segir Helga Hallbergsdóttir, safnstjóri Sagnheima í samtali við Eyjar.net.
„Nú ýtum við úr vör í Sagnheimum nýjum dagskrálið sem við köllum Sagnheimar: Safnið okkar – sagan mín. Hér ætlum við að fá einn bæjarbúa í senn til að koma á safnið og miðla okkur hinum, ýmist ýtarefni við sýningar safnsins, gripi eða eitthvað sem e.t.v. vantar alveg. Miðlunin er alveg að vali gestaleiðsögumannsins.
Njáll Ragnarsson formaður bæjarráðs ætlar að ríða fyrstur á vaðið. Hann valdi að fjalla um langafa sinn Danska Pétur og syni hans sem allir tóku þátt í vélvæðingu bátaflotans hér og þar með uppbyggingu bæjarfélagsins eins og við þekkjum það í dag. Er það einkar vel við hæfi nú þegar við fögnum 100 ára kaupstaðarafmæli Vestmannaeyja.” segir Helga.
Dagskrá Njáls er á laugardaginn 30. mars kl. 13 og eru allir hjartanlega velkomnir.
Á myndinni hér að ofan má sjá einn af gripum Sagnheima: Stút af kampavínsflösku sem Þórdís Jóelsdóttir (1916-1996) notaði við nafngift skipsins Danska Péturs 20. febrúar 1971. Danski Pétur VE 423 var lengst í eigu Emils M. Andersen og útgerðarfélags hans. Flöskustúturinn kom í vörslu Sagnheima í júní 2013 og er til sýnis í anddyri Sagnheima.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst