Aldrei hefði mér dottið í hug að ég yrði gísl. Að einhverjir sperðlar gerðu líf mitt að sinni féþúfu og ég kæmist ekki spönn frá rassi án þess að fyrir mig yrði greitt lausnargjald.
Í Póllandi liggur ferja við festar, ferjan sem á að flytja mig þennan litla spöl upp í Landeyjar, spöl sem Landeyingar réru á árabátum á árum áður á vertíð út í Eyjum. Þarlendir vilja ekki sleppa hendi af ferjunni góðu, já þessari sem var hönnuð á Íslandi, já þessari sem mátti ekki vera nema 66 metra löng, já þessari sem pólverjarnir þurftu að endurhanna, já þessa sem pólverjarnir þurftu að lengja svo hún stæðist þær kröfur að geta flotið létt yfir sandinn botninn í Landeyjum. Ferjan góða er ekki væntanleg í bráð því pólverjarnir telja okkur skulda sér eitt þúsund og tvöhundruð spesíur, en við teljum að þeir skuldi okkur tvöhundruð af því að þeir voru svo lengi að negla hana saman.
Snillingunum hjá Vegagerðinni þótti engin ástæða til þess að kaupa sér 4ra klukkutíma flug með Wizzair eða Lot fyrir einar tuttugu og sex þúsund krónur báðar leiðir, já svona aðeins meira en fyrir 16 mínútna flug aðra leiðina frá henni Reykjavík til eyjarinnar fögru í suðri, Heimaey. Þeir sendu strax lögfræðingateymi frá okkar gömlu höfuðborg, Kaupmannahöfn til skrafs og ráðagerða. Mér skilst að lögfræðingar í Danmörku séu næstum því ókeypis, annað en bölvaður melurinn hann Sveinn Andri, sem er tuttugu og fimm sinnum dýrari en tvöþúsundkallinn Ástþór Magnússon. Já, skrýtið á Íslandi.
Í ríki Maós formanns, Kína, bíða tveir hvalir í gíslingu, þeir eru í gíslingu fyrirtækis í Reykjavík sem hangir á samningi við Vegagerðina sem þeir fengu vegna þess að illa upplýstur embættismaður gekk þannig frá útboðsgögnum að þeir gátu smeigt sér inn í tilboð um dýpkun Landeyjahafnar með ónýtum búnaði. Þjáningar Eyjamanna skipta ekki miklu máli meðan gullið klingir í kassanum þeirra í ofsafengnum dansi við gullkálfinn. Það er tiltölulega auðvelt að flytja hvalina frá Shanghai, 8947 kílómetra. Það er einnig litlum vandræðum háð að aka frá Keflavík til Landeyjahafnar, eina 169 kílómetra. Vandamálið eru 11 kílómetrar frá Landeyjahöfn til Vestmannaeyja. Takk Björgun, takk Vegagerð eða á ég að segja skammist ykkar?
Ekki veit ég hvað olli því að útböðsgögn vegna dýpkunar Landeyjahafnar voru það meingölluð að Björgun gat smeigt sér inn með ruslið sitt, þrátt fyrir kröftug mótmæli bæjastjórnar Vestmannaeyja. Læðist að mér sá grunur að sá sem kom þessu í gegn sitji nú á sólarströnd með fjölskyldu sinni og hugsi hlýtt til sanddælinga.
En Landeyjahöfn og ferjunni er ekki eingöngu haldið í gíslingu. 4300 manns er haldið í gíslingu. Fjöldi fyrirtækja í Eyjum er haldið í gíslingu. Geðheilsu þeirra sem treysta á þau loforð sem gefin voru fyrir 10 árum af opinberri stofnun og landfeðrunum er haldið í gíslingu, harðduglegt fólk sem lagði allt sitt undir til að taka á móti væntanlegum gestum eyjanna, túristunum.
Þorsteinn Vilhelmsson stjórnarformaður Björgunar og Lárus Dagur Pálsson framkvæmdastjóri Björgunar. Allir Vestmannaeyingar vita að þið buðuð langt undir kostnaðarverð í þessa dýpkun vegna þess að belgarnir voru farnir að dýpka annars staðar á Íslandi með sínum öflugu tækjum. Þið þurftuð að losna við þá sem samkeppnisaðila. Skömm ykkar er mikil. Vegna græðgi ykkar er þetta byggðarlag í molum. Fólk er að tapa eigum sínum, fyrirtæki eru að leggja upp laupana vegna græðgi ykkar.
Auðvitað haldið þið uppteknum hætti, felið ykkur í myrkum skúmaskotum þagnarinnar. Þar líður ykkur best. Það eina sem við fáum að heyra er að óvandaður embættismaður Vegagerðarinnar hafi svikið ykkur inn á okkur. Það er komið nóg.
Kristinn Guðbrandsson var forstjóri Björgunar um áratuga skeið. Hann var landsfrægur fyrir afrek sín á sviði björgunar, bjargaði 80 skipum sem strandað höfðu, flest við suðurströnd landsins. Hann var áræðinn ævintýramaður sem heillaði þjóðina þegar hann ásamt félögu sínum árið 1970 hóf að leita gullskipsins Het Wapen Van Amsterdam. Áratugum saman var skrifstofa þessa virta fyrirtækis í skúr við Vatnagarða. Allt heimsins prjál snerti hann ekki. Hann þurfti ekki skrifstofu á við einbýlishús eða annan flottræfilshátt. Þannig eru sumir menn, stórir af sjálfum sér. Stórhuga maður eins og Kristinn hefði frá upphafi boðið okkur upp á það besta sem völ var á, en vikið undan ella.
Þið forráðamenn Björgunar. Hvernig væri að sýna stórhug og drenglyndi, viðurkenna vanmátt ykkar og eftirláta verkið þeim sem hafa dug og búnað til að sinna því og hafa í gegnum árin öðlast trú og traust samfélagsins í Vestmannaeyjum. Þið Björgunarmenn eigið langt í land að ná þeim árangri.
Alfreð Alfreðsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst