Hljómsveitin GÓSS sem þau Sigurður Guðmundsson, Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar skipa heldur tónleika í Alþýðuhúsinu, á morgun, fimmtudaginn 4. júlí.
„GÓSS hefur hlotið einróma lof fyrir tónleika sína um land allt undanfarin ár og heldur núna sína fyrstu tónleika í Vestmannaeyjum,“ segir á vef Alþýðuhússins.
Þar kemur fram að tónleikadagskráin verður samansett af ýmsum lögum frá ferli meðlima sveitarinnar en einnig mikið af þeirra uppáhaldslögum, með hljómsveitum og tónlistarfólki á borð við Neil Young, Abba og NýDönsk svo fátt eitt sé nefnt.
Lofað er einlægri kvöldstund með okkar fremsta tónlistarfólki sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Er hægt að taka undir það því Sigurður og Sigríður mynda einstakan dúett og Guðmundur Óskar kann sitt fag.
Hljómsveitin Góss er tríó, skipuð þeim Sigríði Thorlacius, Sigurði Guðmundssyni og Guðmundi Óskari Guðmundssyni. Er nafn sveitarinnar einmitt sett saman úr fyrstu stöfunum í nöfnum meðlima.
Þau Sigríði Thorlacius og Sigurð Guðmundsson þarf vart að kynna en þau hafa lengi verið á meðal þekktustu og dáðustu söngvurum landsins. Guðmundur Óskar er einn fremsti og fjölhæfasti bassaleikari landsins en hann hefur leikið með ótrúlegum fjölda hljómsveita, auk þess að vinna sem upptökustjóri fyrir fjölmörg verkefni.
Sveitin tengist sterkum fjölskyldu- og vináttuböndum en Guðmundur Óskar og Sigurður eru bræður, Sigríður og Guðmundur eru svo saman í Hjaltalín og öll þrjú hafa þau unnið saman í fjölmörgum mismunandi verkefnum. Það má því segja að það hafi beinslínis verið fyrirsjáanlegt þegar hljómsveitin GÓSS varð til sumarið 2017. Þá lét sveitin draum verða að veruleika og hélt tónleikaferð um landið. Sveitin endurtók förina árið eftir og hefur jafnframt spilað við alls kyns tilefni um allt land.
Hvar sem sveitin hefur stigið á stokk hafa móttökurnar verið gríðarlega jákvæðar, og því fannst meðlimum sveitarinnar ekki annað hægt en að drífa sig í upptökuverið og reyna að fanga þann jákvæða og bjarta anda sem skapast hefur á tónleikum sveitarinnar.
Upptökur fór fram í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ og var ákveðið að taka fyrir nokkrar af þeirra uppáhalds íslensku dægurlagaperlum, eða Allt frá Ó, blessuð vertu sumarsól og Sólkinsnætur til Stjórnarinnar, NýDanskrar, Spilverk þjóðanna og alls konar þar á milli. Reyndar fær eitt lag með Leonard Cohen að fylgja með.
Tónleikarnir hefjast klukkan 20.30 í Alþýðuhúsinu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst