Á föstudaginn næstkomandi verða haldnir sannkallaðir stórtónleikar í Íþróttamiðstöðinni. En tónleikarnir eru liður í dagskrá Goslokahátíðar sem og 100 ára afmælis Vestmannaeyjakaupstaðar.
Fram koma á tónleikunum Björgvin Halldórsson, Ragnhildur Gísladóttir, Júníus Meyvant, Sverrir Bergman, Halldór Gunnar Pálsson, Silja Elsabet Brynjarsdóttir, strengjasveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Lúðrasveit Vestmannaeyja og Karlakór Vestmannaeyja. Úrvals hljóðfæraleikarar undir stjórn Jóns Ólafssonar. Fjölbreyttur lagalisti þar sem Goslokalagið verður m.a. frumflutt.
Áhugi á stórtónleikunum í boði Vestmannaeyjabæjar á föstudagskvöldið hefur farið fram úr björtustu vonum. Sérstaklega á tónleikana kl. 21.00 og er svo komið að allir miðar sem farnir voru í dreifingu eru búnir þrátt fyrir að bætt hafi verið við miðum.
Vegna ásóknar hefur afmælisnefndin ákveðið að setja alla miðana á seinni tónleikana í dreifingu. Hægt verður að nálgast miða í Íþróttamiðstöðinni frá kl. 17.00 í dag, miðvikudag. Engir miðar verða því í boði við dyrnar á seinni tónleikana á tónleikadegi eins og áður var búið að tilkynna.
Meira er eftir af miðum á fyrri tónleikana kl. 18.00 , en vakin er athygli á að um er að ræða sömu dagskrá. Það ætti því ekki að skipta máli á hvora tónleikana er farið. Stemningin verður frábær á báðum tónleikunum. Miðar á fyrri tónleikana fást afhentir í Íþróttamiðstöðinni, Eldheimum og Safnahúsi. Er um að gera að tryggja sér miða sem fyrst. Vestmannaeyjabær býður á tónleikana – enginn aðgangseyrir.
Ljósmyndari Eyjar.net leit við í Íþróttamiðstöðinni í gær þegar tæknimenn voru að koma upp tæknibúnaði, sviði o.fl.
Fleiri fréttir af Goslokahátíðinni og 100 ára afmæli Vestmannaeyjabæjar má lesa hér.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst