Þriðja dagskráin af fyrirhuguðum þrettán undir heitinu Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt heldur áfram þriðja laugardaginn í röð.
Að þessu sinni sýna þrjár konur sem allar eru þekktar sem ljósmyndarar til margra ára eða fremur áratuga, þær Laufey Konný Guðjónsdóttir, Ruth Zohlen og Sigríður Högnadóttir.
Myndefnið er Vestmannaeyjar í öllum sínum margbreytileika og það er óhætt að lofa því að Konný, Ruth og Sísí fanga hver með sínum hætti undursamleika eyjanna.
Landslagsmyndir, tví- og ferfætlingar sem deila sömu jörðinni, litir og skuggar sem bregða á leik og hamskiptin þar sem vetur og sumar bera fram ólíkar ásjónur sama staðar.
Öllu þessu er teflt saman í ljósmyndasýningu þeirra þriggja og er ástæða til að hvetja sem allra flesta til að mæta og horfa á. Af gefnu tilefni er rétt að ítreka að um er að ræða ljósmyndir sem rúlla á sýningartjaldi og aðeins um þessa einu sýningu að ræða.
Dagskráin er í boði afmælisnefndar Vestmannaeyjabæjar í tilefni af 100 ára kaupstaðarafmæli.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst