Síðustu tvo mánuði hefur Herjólfur aðeins þurft að sigla 5 daga í Þorlákshöfn. Það eru frábær tíðindi, sér í lagi þar sem komið er fram í desember. En erum við að nýta öll þau tækifæri sem okkur býðst?
Í skýrslu frá greiningu Íslandsbanka er sér kafli um fjölda ferðamanna til Eyja frá því að Landeyjahöfn opnaði árið 2010 – 2018. Í skýrslunni segir:
„Á tímabilinu 2010-2018 fjölgaði öllum farþegum með Herjólfi, óháð þjóðerni, um 127 þúsund eða 60%. Á sama tíma fjölgaði erlendum ferðamönnum hingað til lands um tæplega 1,9 milljón sem nemur ríflega fimmföldun.
Ekki liggur fyrir þjóðernaskipting farþega með Herjólfi og því ekki hægt að slá því föstu hvort erlendir ferðamenn séu að drífa áfram fjölgun farþega með Herjólfi yfir áðurgreint tímabil. Ljóst er þó að fjölgun farþega með Herjólfi er mun hægari en fjölgun ferðamanna og má draga þá ályktun að Vestmannaeyjar hafi farið varhluta af uppgangi ferðaþjónustunnar að talsverðu leyti.
Samgöngur vega þungt í þessum efnum og hafa íbúar Vestmannaeyja talað um að ferðaþjónusta sveitarfélagsins detti nánast alfarið niður þegar ekki er siglt frá Landeyjarhöfn. Þá gefur augaleið að flestir ferðamenn munu ekki hafa svigrúm til að heimsækja hvern krók og kima landsins á meðan dvöl þeirra stendur yfir.
Ferðamaðurinn ferðast oftast um suðvesturhorn landsins en síður til annarra landsvæða. Þannig er innbyrðis samkeppni ferðaþjónustuaðila á Íslandi hörð og þarf að gefa ferðamanninum sterkan hvata ef takast á að laða hann frá suðvesturhorni landsins í ríkari mæli. Þarna felast mikil tækifæri fyrir Vestmannaeyjar litið fram á við og eru umbætur í samgöngum líklega sá áhrifaþáttur sem þyngst vegur í þessum efnum.”
Óhætt er að segja að manni bregði við að sjá grafið hér að neðan, þar sem má sjá annars vegar fjölgun farþega með Herjólfi og hins vegar fjölgun ferðamanna til landsins. Eitt vitum við að mörg þúsund ferðamenn keyra daglega framhjá afleggjaranum niður til Landeyjahafnar, á leið sinni til Víkur og áfram jafnvel þaðan.
Nú er Hvíslað um það hvort að það geti verið að allir þessar ferðamenn hafi ekki hugmynd um þessa náttúruperlu í suðri, sem þeir bruna allir framhjá?
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst