Undanfarin ár höfum við átt því láni að fagna að geta leitað til vina okkar í Stykkishólmi og á Vestfjörðum þegar Herjólfur hefur þurft í reglulegar skoðanir og Breiðafjarðarferjan Baldur hefur brúað bilið.
Vandræði Baldurs nú á dögunum hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum og útséð með að hann mun ekki sigla næstu vikurnar. Vestfirsk fyrirtæki eiga nú undir högg að sækja vegna ófærðar og enginn er Baldur.
Tryggvi Sigurðsson stakk uppá því á facebook síðu sinni að við launuðum Vestfirðingum gamla greiða og lánuðum þeim nýja Herjólf meðan Baldur er frá, en sá gamli ristir of djúpt og er því ónothæfur á þessari siglingarleið. Það er gaman að sjá hvað fólk tekur almennt vel í þessa tillögu Tryggva.
Landeyjahöfn er með besta móti núna og ekkert því til fyrirstöðu að Herjólfur III geti haldið uppi áætlun þangað.
Ég leyfi mér að skora á bæjaryfirvöld og ríkið að bregðast skjótt við og lána Vestfirðingum Herjólf svo siglingar um Breiðafjörð verði með eðlilegum hætti þangað til Baldur kemur tvíefldur aftur.
Alfreð Alfreðsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst