38% aukning á milli ára
8. maí, 2024
adgerd_DSC_3053_opf
Veruleg aukning er á útflutningsverðmæti ferskra afurða og svo saltaðra og þurrkaðra afurða. Eyjar.net/Óskar Pétur Friðriksson

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 28,5 milljörðum króna í apríl samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum um vöruskipti í mánuðinum, sem Hagstofan birti í gærmorgun. Það er rétt rúmlega 2% aukning í krónum talið miðað við apríl í fyrra. Þar sem gengi krónunnar var tæplega 1% hærra nú í apríl en í sama mánuði í fyrra, er aukningin mæld í erlendri mynt á svipuðu róli, eða rúmlega 1%. Frá þessu er greint í Radarnum – mælaborði sjávarútvegsins.

Útflutningsverðmæti ferskra afurða nam 7,7 milljörðum króna í apríl og jókst um tæp 38% á milli ára á föstu gengi

Eins og alla jafna er þróunin nokkuð mismunandi á milli einstaka afurðaflokka. Veruleg aukning er á útflutningsverðmæti ferskra afurða og svo saltaðra og þurrkaðra afurða.

Þannig nam útflutningsverðmæti ferskra afurða 7,7 milljörðum króna í apríl og jókst um tæp 38% á milli ára á föstu gengi. Ferskar afurðir voru þar með um 27% af útflutningsverðmæti sjávarafurða í heild í mánuðinum, en það hlutfall hefur aldrei verið svo hátt í apríl. Útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða nam 5,1 milljarði króna í apríl og jókst um 27% á milli ára á sama kvarða. Þá var rúmlega 5% aukning í útflutningsverðmæti „annarra sjávarafurða“, en þar undir teljast meðal annars loðnuhrogn. Þar sem um fyrstu bráðabirgðatölur Hagstofunnar ræðir í apríl liggja ekki fyrir upplýsingar um verðmæti niður á einstaka fisktegundir í mánuðinum. Gera má þó ráð fyrir að nokkur útflutningur sé á loðnuhrognum í apríl frá síðustu loðnuvertíð, líkt og verið hefur undanfarna mánuði.

Útflutningsverðmæti allra annarra afurðaflokka dróst saman á milli ára í apríl. Útflutningsverðmæti heilfrysts fisks dróst saman um 35% á milli ára á föstu gengi. Þann samdrátt má vafalaust að stærstum hluta rekja til loðnubrests, enda var þó nokkur útflutningur á heilfrystri loðnu í apríl í fyrra. Af öðrum afurðaflokkum má nefna að nokkur samdráttur var í útflutningsverðmæti frystra flaka (-11%), fiskimjöls (-8%) og lýsis (-10%). Mestur var þó samdrátturinn í útflutningsverðmæti rækju, en hann nam um 61% á föstu gengi.

r_1

Lítilsháttar samdráttur á fyrsta ársþriðjungi

Á fyrstu fjórum mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í tæpa 111 milljarða króna. Það er rétt rúmlega 3% samdráttur miðað við sama tímabil í fyrra á föstu gengi. Vart þarf nefna að þennan samdrátt má alfarið skrifa á loðnubrest. Það endurspeglast ágætlega í þeim mikla samdrætti sem er í útflutningsverðmæti fiskimjöls (40%) og heilfrysts fisks (33%) á milli ára, en í báðum flokkum voru loðnuafurðir, þ.e. loðnumjöl og heilfryst loðna,  fyrirferðarmiklar í fyrra.

Af öðrum afurðaflokkum má nefna að dágóð aukning er í útflutningsverðmæti lýsis (16%) og ferskra afurða (14%) á fyrstu fjórum mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Í þeim tilvikum hafa verðmætin í raun aldrei verið meiri á fyrsta ársþriðjungi og nú í ár. Minni breyting var á útflutningsverðmæti annarra afurðaflokka á milli ára, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan.

Facebook
X
LinkedIn
Pinterest
Reddit
Email
Print
Skoða blaðið á netinu
6. tbl. 2025
6. tbl. 2025

NÝBURAR

76e2af77 02d9 48eb B73a 24c32e2403ac
4. janúar 2025
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Katrín Rós Óðinsdóttir og Sæþór Örn Garðarsson.
Mest lesið
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.