Eyjamenn eru eðlilega vonsviknir eftir slæma útreið í evrópuleiknum á Hásteinsvelli í gær. „Þetta er of stórt. Þetta er ekki svona mikill munur á þessum liðum. Ég talaði við nokkra í liðinu þeirra fyrir leik og þeir voru skíthræddir að koma hingað. Við ákváðum það að mæta þeim hérna í byrjun og pressa vel á þeim,” sagði Gunnar Heiðar í samtali við fotbolti.net að leik loknum í gær.
Gunnar þekkir vel til norska boltans eftir að hafa spilað þar 2007 – 2008 með Vålerenga I.F. og svo aftur með Fredrikstad FK 2010-2011. Aðspurður um möguleika ÍBV í seinni viðureign liðanna sagði hann að mikilvægast væri bara að njóta. „Þessi leikur er kannski einn stærsti leikur sem 80% af þessum peyjum er að fara að spila á ævinni. Þannig við eigum bara að fara út og njóta þess og leggja allt í þetta, spila fyrir ÍBV og bara njóta.”
Síðari leikur liðanna fer fram fimmtudaginn 19. júlí kl 17:00 að Íslenskum tíma.
“ÍBV hefur gert góðan díl varðandi hótelgistingu fyrir áhugasama að fara á teppalagaðan völl Sarpsborgar sem er tæpri klst frá Osló. Knattspyrnuráð gerði tilraun til að setja saman hópferð en vegna mikillar eftirspurnar farþega á flugleiðinni Kef-Osló, var ekki unnt að bóka fyrir hópa,” segir í tilkynningu frá ÍBV sem hvetur fólk og vinahópa eindregið til að gera sér góða ferð, taka millilendingu og skella sér á fimmtudegi til Sarpsborgar og taka þar góða helgi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst