Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja sl. fimmtudag var haldið erindi um rafmagn til Vestmannaeyja, forgangsorku, varaafl og rafmagnsþörf.
Eins og fram kemur í fundargerð þá greindi Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, frá stöðu viðgerða á rafmagnsstrengnum sem bilaði í janúarmánuði síðastliðnum. Skv. Landsneti eru erfiðar aðstæður á hafsbotni sem hafa gert það að verkum að viðgerðin hefur dregist. Kafarar hafa þurft að hreinsa ofan af gamla strengnum þar sem á að taka hann í sundur. Lyfta þarf strengnum upp til þess að gera við hann.
Áætlanir viðgerðaraðila gera ráð fyrir að taka VM23 úr rekstri í dag, laugardag, en það gæti hliðrast til ef hreinsunin dregst enn frekar. Á landi hefur tenging sæstrengsins við landstrenginn verið undirbúin og allt tilbúið þar fyrir tengingar þegar strengurinn hefur verið tengdur á sjó. Miðað við núverandi áætlun má gera ráð fyrir að strengurinn verðir spennusettur um aðra helgi. Það er þó allt háð veðri og ölduhæð á svæðinu.
Myndatexti: Viðgerðarskipið Henry P Lading í fjarska.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst