Lítið af loðnu í þorskmögum í togararallinu

Árlegu togararalli Hafrannsóknastofnunar í marsmánuði er lokið. Fjögur skip mældu á 580 fyrirfram gefnum rannsóknastöðvum hringinn í landið, þar af voru 154 stöðvar á könnu Breka VE suður af og suðaustur af landinu.

Kastað var og veitt á öllum stöðum allt niður á 500 metra dýpi, fiskurinn kannaður, veginn og metinn á alla kanta og allar upplýsingar færðar í gagnagrunn eftir kúnstarinnar reglum.

Togararallið er grunnstoð í rannsóknum nytjastofna á miðunum við landið og mikilvæg forsenda veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar. Rallið í ár var hið fertugasta í röðinni og þegar samanburðarhæfum upplýsingum hefur verið safnað í svo langan tíma gefur auga leið að glögga mynd má fá af ástandinu á hverjum tíma og þróuninni í hafinu þegar horft er um öxl til lengri tímaskeiða.

Áhöfnin á Breka tók þátt í marsrallinu fjórða árið í röð, Gullver NS, togari Síldarvinnslunnar, var líka með í fjórða sinn og sinnti stöðvum fyrir austan og norðaustan land. Rannsóknamenn Hafró voru um borð í togurunum og sinntu verkefnum í samstarfi við áhafnir og útgerðir skipanna.

Á móti togurunum voru svo rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson fyrir vestan og norðan land.

Lítið um loðnu í mallakútum þorska

Fjallað er um nýafstaðið togararall í 200 mílum Morgunblaðsins í dag, 23. mars. Þar hefur Ingibjörg G. Jónsdóttir, fiskivistfræðingur og verkefnisstjóri stofnmælinga botnfiska, orð fyrir Hafrannsóknastofnun. Fram kemur hjá henni að rannsóknastöðvar úti fyrir Vestfjörðum séu þéttar en hins vegar gisnar undan suðurströndinni:

„Aflinn er mjög mismunandi eftir svæðum og fyrir okkur skiptir það ekki síður máli að gera mælingar á stöðum þar sem alla jafna er lítið af fiski svo við fáum betri mynd af útbreiðslu stofnanna. Fyrir vikið erum við einnig að taka tog á slóðum þar sem sjómenn eru ekkert endilega að sækja.“

Þá er haft eftir Ingibjörgu að það sem finnist í maga þorsks, ýsu og ufsa varpi með öðru ljósi á viðfangsefnið (feitletrun: vsv-vefurinn):

„Magainnihaldið gefur okkur upplýsingar um smærri tegundir í vistkerfi hafsins, líkt og ljósátu og ísrækju, og getur sýnt okkur útbreiðslu og samdrátt eða fjölgun hjá þeim tegundum sem bolfiskar lifa á. Þannig sáum við við það í þetta skiptið að í heildina var áberandi lítið af loðnu í maga þeirra þorska sem við skoðuðum miðað við fyrri ár og styður það við þær mælingar sem hafa farið fram í vetur og leitt í ljós að lítið er af loðnu á miðunum.“

Gagnkvæm ánægja ríkir með samstarfið

Fram kom í viðtali hér á vsv-vefnum í miðju togararalli að stjórnendur Vinnslustöðvarinnar séu afar ánægðir með samstarfið við stjórnendur Hafró, vísindamenn og rannsóknafólk um borð í Breka. Þetta er haft eftir Sverri Haraldsson, sviðsstjóra á botnfisksviði VSV.

Ánægja með samstarfið er gagnkvæm ef marka má það sem haft er í dag eftir verkefnisstjóra Hafrannsóknastofnunar  í 200 mílum:

„Þá segir Ingibjörg að útgerðarfélögin sem taka þátt í rallinu sinni hlutverki sínu með miklum sóma og samstarfið sé einkar gott.

„Allir um borð eru afskaplega hjálplegir og það fer vel um okkur vísindamennina um borð.“

Strax og komið er í land hefst vinna við að greina gögnin og í apríl verður gefin út skýrsla með helstu niðurstöðum.“

  • Á vef Hafrannsóknastofnunar birtust nokkrar myndir úr leiðangri Breka VE núna í mars 2024 Sjá hér.
  • Valur Bogason, sjávarvistfræðingur á starfsstöð Hafrannsóknastofnunar í Vestmannaeyjum, tók hópmyndina af áhöfn Breka og starfsfólki Hafró, í einkennisbúningi leiðangursins, sérmerktum skyrtubolum í tilefni af því að þetta var fertugasta rallið frá upphafi.
  • Hér fylgir kort af rannsóknarsvæðum skipanna fjögurra í rallinu. Siglinga- og veiðileið Breka er gul, leið Árna Friðrikssonnar blá, leið Bjarna Sæmundssonar rauð og leið Gullvers hvít.

 

Nýjustu fréttir

Fimm skip til loðnuleitar
Löndun Breka VE í Grundarfirði – flókið verkefni og fumlaus vinnubrögð
Gong slökun, endurstilling í hraða nútímans
Bæjarráð gagnrýnir samgönguáætlun
Elliði með fimm mörk í stórsigri Íslands
Herjólfur í Þorlákshöfn í dag og á morgun
Orkumálin til skoðunar hjá ráðherra
Dagvistunarmál til umræðu á fundi fræðsluráðs

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.