Stuðningsmenn Páls Magnussonar beita þeirri aðferð að útiloka mig frá umræðunni. Það er gert með því að snúa staðreyndum á hvolf. Þeir bera það út á meðal fólks hvar sem þeir koma að baráttan á lokasprettinum snúist um hvort Ragnheiður Elín eða Páll hljóti 1. sætið.
Staðreyndin er sú að baráttan stendur á milli mín og Páls og þess vegna er allt gert til að útiloka mig frá umræðunni. Þetta trix er gamalt í kosningabókinni og reyndir stuðningsmenn í hópi Páls kunna þau vinnubrögð utanbókar.
Ég ætlaði aldrei að beygja af leið í minni prófkjörsvinnu og fara að svara óheiðarlegum vinnuaðferðum því þá gerði ég lítið annað. Ég vil taka fram að hingað til hef ég ekki haft ástæðu til að gera athugasemdir við vinnubrögð Páls og hans fólks, enda sómafólk í þeirra herbúðum.
Samkvæmt öllum kennitölum, upplýsingum fólks og tilfinningu þekktra kosningasérfræðinga stendur baráttan á milli okkar Páls og hefur gert lengi. Það er auðvitað kaldhæðni í því að rótgróinn sjálfstæðismaður etji kappi við innmúraðan krata af Túngötunni í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Ég býð Pál velkominn í hópinn og tek undir með þeim sjálfstæðismönnum sem fagna komu hans í flokkinn en hann þarf að læra mannganginn í Sjálfstæðisflokknum og kynnast fólkinu áður en hann tekur að sér að leiða listann.
Ég er tilbúinn að leiða listann og tel mig klárann í þann slag og býð Pál velkominn um borð.
Ásmundur Friðriksson
Alþingismaður.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst