Nú í aðdraganda kosninga eru flokkarnir að ákveða hvaða leið skuli valin við að stilla upp á lista sína. Vinstri grænir hafa til að mynda tilkynnt um að stillt verði upp á lista í Suðurkjördæmi. Eyjar.net ætlar hér að rína betur skoðanakannanir og hvaða leið kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja að notuð sé til að raða niður á lista flokksins.
Fastlega má búast við prófkjöri á meðal sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Reyndar voru einhverjir innan raða flokksins að tala fyrir tvöföldu kjördæmisþingi, en mun líklegra er að prófkjör verði niðurstaðan. Það er sú leið sem oftast hefur verið farin og talin sanngjörnust. Það skýrist næstkomandi sunnudag þegar aðalfundur kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmí verður haldinn.
Ef skoðaður er núverandi þingmannalisti sjálfstæðismanna í kjördæminu má sjá að baráttan verður hörð. Ragnheiður Elín er oddviti og situr sem ráðherra. Unnur Brá var í öðru sæti í síðasta prófkjöri og Ásmundur Friðriksson kom nýr inn og náði þriðja sætinu. Vilhjálmur Árnason varð svo í því fjórða.
Það er ljóst að það verður á brattann að sækja fyrir flokkinn í næstu kosningum ef miðað er við könnun sem Eyjan.is birti í síðustu viku tapar flokkurinn helmingi þingmanna sinna og fær einungis tvo þingmenn í kjördæminu. Reyndar tapar hinn stjórnarflokkurinn einnig tveimur mönnum en Píratar fá inn fjóra menn – en hafa nú engan.
*Suðurkjördæmi. Mynd/eyjan.is
Ef hinsvegar er skoðuð nýleg könnun Fréttablaðsins sem tekin var þann 9.maí sl. kemur í ljós önnur niðurstaða. Þar voru spurðir 1019 og náðist í 799 manns í heildina og var skiptingin í Suðurkjördæmi svona:
Mynd/vísir.is. Blátt er könnun gerð 9.maí – rautt eru kosningar 2013.
Á þessum könnunum má sjá að fylgi Pírata virkar nokkuð stöðug um þessar mundir og halda þeir inni fjórum mönnum. Það getur á hinn bóginn breyst þegar að listinn hjá Pírötum er kominn fram. Í dag er ekki vitað hvaða fólk mun skipa listann og óvissan því töluverð. Hinsvegar ber könnunum ekki saman er kemur að Sjálfstæðisflokknum. Þar má búast við litlum breytingum á efstu fjórum sætunum. Gætu hugsanlega einhverjir haft sætaskipti og hugsanlega eitt nýtt nafn af efstu fjórum. Samfylkingin missir sinn mann í báðum könnunum en Vinstri-grænir ná hinsvegar inn manni í báðum mælingum. Framsókn tapar 2-3 mönnum í umræddum könnunum og staðan gæti orðið þannig að forsætisráðherra verði hreinlega eini þingmaður flokksins í Suðurkjördæmi.
Líklegt má telja að baráttan verði því hörð verði prófkjör niðurstaðan hjá Sjálfstæðisflokknum. Sennilegt er að Ragnheiður Elín ætli að reyna að verja oddvita sæti sitt – þrátt fyrir að hún hafi ekki svarað fyrirspurn Kjarnarns um framhaldið. Unnur Brá, Ásmundur og Vilhjálmur hafa þegar gefið út að þau hyggist halda áfram í pólitík. Spurningin er bara hvaða sætum þau sækjast eftir – en sennilegt er að einhver af þeim fari til höfuðs oddvita flokksins, verði prófkjör.
Svo er það spurningin um nýliða, hvort einhver nýr og ferskur ætli sér að taka slaginn. Oft hefur nafn Elliða Vignissonar komið upp í aðdraganda Alþingiskosninga. Eyjar.net hafði samband við bæjarstjórann vegna þessa.
Ætlar þú að taka slaginn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins til næstu Alþingiskosninga?
,,Fyrir seinustu 4 alþingiskosningar hef ég svarað þessari spurningu eins. Ég er sáttur þar sem ég er og næg eru verkefnin. Mér líður vel í því sem ég er að gera og nýt þess að vinna með frábæru fólki að uppbyggingu á stað sem ég elska.” sagði Elliði og bætti við ,,Það er nú líka full fljótt hjá þér að spyrja að þessu þar sem enn hefur ekki einu sinni verið tekin ákvörðun um hvort farið verði í prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í suðurkjördæmi.”
Eyjar.net setti sig í samband við alla fjóra þingmenn Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu og sendi á þá eftirfarandi spurningu:
Hvernig telur þú skynsamlegast að raða upp á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi?
Ragnheiður Elín Árnadóttir: ,,Varðandi það hvernig velja skuli á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi kosningar þá verður það ákveðið um næstu helgi og ég tel ekki að við sem erum kjörnir fulltrúar eigum að vera að hafa miklar skoðanir á því fyrirfram, heldur einfaldlega lúta þeirri ákvörðun sem verður ofan á í kjördæmisráðinu.”
Unnur Brá Konráðsdóttir: ,,Ég tel prófkjör vera bestu leiðina. Þá eiga allir skráðir félagar í kjördæminu kost á því að velja listann. Það er lýðræðislegasta aðferðin.”
Ásmundur Friðriksson: “Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengst af treyst kjósendum sínum til að velja lista flokksins fyrir sveitarstjórnar- og alþingiskosningar. Með öflugu prófkjöri hefur flokkurinn náð upp stemningu sem nær oft langt út fyrir fast fylgi flokksins og hefur nýst vel í komandi kosningum. Ég tel að það sé engin ástæða til að taka það val úr höndum flokksmanna og fá það í hendur fáum útvöldum, það er ekki leið Sjálfstæðisflokksins til að treysta kjósendum.”
Vilhjálmur Árnason: ,,Mín hugsjón og prinsip mælir alltaf með prófkjöri. Það eru kostir og gallar bæði við prófkjör og tvöfalt kjördæmisþing sem ég skil vel að fólk vilji velta fyrir sér. Uppstilling á ekki að vera til umræðu innan Sjálfstæðisflokksins.”
Samkvæmt heimildum Eyjar.net mun vera þrýstingur á um það innan kjördæmisins að einhverjar breytingar verði á efstu fjórum sætunum, og að inn komi nýr maður. Allar líkur eru á að Ragnheiður Elín sækist áfram eftir oddvitasætinu en búast má við að hún fái samkeppni þ.e.a.s ef það verður prófkjör. Það eru því spennandi tímar framundan í pólitíkinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst