Það er greinilega komið vor í Eyjum með föstum vorboðum. Farfuglarnir byrjaðir að koma og páskahretið á leiðinni og það nýjasta, Landeyjahöfn eins og vanalega full af sandi.
Það hefur ótrúlega mikið verið skrifað um Landeyjahöfn að undanförnu og margt mjög athyglisvert þar. Sérstaklega þóttu mér góðar greinarnar frá skipstjóranum á Lóðsinum og skipstjóranum á Dísu, enda eru þar á ferðinni menn, sem eru að skrifa út frá þekkingu og reynslu.
Mig langar hins vegar að koma aðeins inn á ræðu bæjarstjórans frá því í bæjarstjórn fyrir rúmu ári síðan (tek það fram að ég var ekki á staðnum og þetta er ekki orðrétt), en svona var mér sagt að bæjarstjórinn hefði orðað það: “Ég hef ekkert vit á samgöngum á sjó, og það hafið þið ekki heldur. Við eigum og verðum að treysta sérfræðingunum.” (Vonandi er þetta amk nálægt því að vera rétt).
Þessum orðum bæjarstjórans er ég alveg sammála, en svo skilur á milli, því þegar bæjarstjórinn talar um sérfræðinga, þá er hann að sjálfsögðu að tala um þá sem tóku ákvörðun um að gera þessa höfn á þessum stað, og um leið þá sem bera hvað mesta ábyrgð á öllu þessu klúðri sem Landeyjahöfn er. Í mínum huga, hins vegar, eru hinir einu réttu sérfræðingar á samgöngum á sjó, sjómennirnir og skipstjórarnir sem starfað hafa á svæðinu, en merkilegt nokkuð, bæjarstjórnin virðist ekki hafa nokkurn áhuga á að fara að ráðum þeirra sérfræðinga.
Reyndar finnst mér þetta orð, sérfræðingur, afar leiðinlegt og svolítið sérstakt þegar maður hugsar til baka um sumar fullyrðingar sem bæði hafa verið skrifaðar og sagðar af sérfræðingum Vegagerðarinnar og Siglingamálastofnunar í gegnum árin, eins og t.d. varðandi sandburðinn, hér hefir orðið gos sem ekki var reiknað með, óvenju harður vetur, náttúran mun taka höfnina í sátt, vandamálin eru vegna Markarfljóts og síðan í haust, vissi alltaf að útreikningar dönsku sérfræðinganna varðandi sandburð væri rangir. Aðrar fullyrðingar eins og hafðu ekki áhyggjur af austanáttinni, það kemur nánast aldrei austanátt í Eyjum, frátafir upp á 1,6%, 10 dagar, 20 dagar, 10%, 20-30 dagar, 30-70 dagar, 2-3 mánuðir, allt meira og minna ágiskanir algjörlega út í loftið. Spá mín um frátafirnar frá 2007 var, í góðum árum 4-6 mánuðir, í mjög vondum veður árum allt að 8 mánuðir (að gefnu tilefni þá hefur veturinn í vetur verið óvenju mildur).
Aðeins að grein bæjarstjórans þar sem hann orðaði þetta þannig: “Ef menn hefðu vitað um sandburðinn fyrir fram, þá hefðu menn sennilega ekki gert þessa höfn og hvar stæðum við þá.”
Ég hef nú svarað þessu áður og get svo sem endurtekið það, að sögn sumra úr stjórn Ægisdyra, sem fullyrða það að ef þeir hefðu haft stuðning bæjarstjórnarinnar á sínum tíma, þá værum við komin með göng í dag. (tek það fram að ég er ekki í stjórn Ægisdyra)
Lokaorð
Ég er á þeirri skoðun að skynsamlegast væri í dag að fá stærri og gangmeiri ferju, til þess að geta betur tekist á við þá auknu flutnings þörf sem blasir við, en auðvitað þyrfti sú ferja að geta siglt í báðar hafnirnar (með ólíkindum að það eigi að fara að smíða ferju, sem siglt verður að öllum líkindum á 12,5-13 mílna ferð og með hámarks ganghraða upp á 15 mílur, á meðan meira að segja gámaskipin sigla á þetta 15-18 mílna hraða).
Það eru í gangi gríðarlega margar og miklar kjaftasögur, bæði um þessa nýsmíði og um Landeyjahöfn og að mínu vita væri skynsamlegast í stöðunni að boða til borgarafundar, þar sem smíðanefnd og hönnuðir á ferjunni gætu þá svarað öllum þessum kjaftasögum varðandi nýju ferjuna.
Einnig væri skynsamlegt að fá á fundinn fulltrúa ríkisins, sem hefur nú þegar sett, eftir því sem mér er sagt, á fjárhagsáætlun ákveðna upphæð sem merkt er lagfæringum á Landeyjahöfn og fá þá skýr svör um það, í hverju þær lagfæringar felast.
Ég skora hér með á bæjarstjórn Vestmannaeyja að beita sér í því, að boðað verði til slíks borgarafundar, enda veitir ekki af, sérstaklega ef tekið er tillit til nýrrar skoðanakönnunar MMR þar sem klárlega kemur fram djúp gjá milli yfirgnæfandi meirihluta bæjarbúa og bæjarstjórnar um það, hvað gera eigi næst.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst