Svolítið sérstakt að fylgjast með því hvernig umræðan um Landeyjahöfn lognast niður yfir sumarmánuðina, eða á meðan höfnin virkar. Reyndar er tíðin búin að vera hund leiðinleg og eitthvað um frátafir í sumar, en það sem er kannski verst fyrir ferðaþjónustuaðilana hér í Eyjum er að fólk ofan af landi er greinilega líka farið að fylgjast vel með veðurspám og mikið um afpantanir þegar veðurspáin er varasöm.
Heitasta umræðuefnið í vor var sennilega þegar fyrst Herjólfur og síðan Víkingur snérust í innsiglingunni í Landeyjahöfn. Reyndar fannst mér sú umræða vera full öfgafull, enda þekkja allir skipstjórar það að skip sem er á siglingu með ölduna fyrir aftan sig (á lensi) að ekki er óalgengt að skip snúist við þær aðstæður og að sjálfsögðu eru allir vanir skipstjórnendur með höndina á stýrinu við þær aðstæður, en skip eru að sjálfsögðu misjafnlega góð að taka við sér og miðað við mína reynslu, þá eru t.d. skip sem eru sérstaklega flatbotna, eins og þessi nýja ferja á að vera, mikið lengur að taka við sér.
Ég hef lent nokkuð oft í umræðu um möguleikann á göngum. Margir hafa sagt að þetta sé ekki raunhæft vegna þess, að það muni aldrei fást fjármagn í göng, en mín skoðun er einfaldlega sú, sem flestir viðmælendur mínir enda alltaf á, að auðvitað væri best ef við gætum fengið göng og ég segi því: Til hvers að vera að tala um eitthvað annað. Eigum við Eyjamenn ekki skilið það besta? Og er eitthvað í spilunum eitthvað sem segir, að vandamál Landeyjahafnar sé að fara að leysast á næstu árum?
Það er þegar ljóst að kostnaður við að moka sand úr Landeyjahöfn á þessu ári er kominn yfir 500 milljónir og innanríkisráðherra er búinn að gefa það út, að það eigi að setja 1300 milljónir í Landeyjahöfn næstu 3 árin, sem samkvæmt þessu ári mun því gera lítið annað en að duga fyrir sandmokstri.
Varðandi gangaumræðuna, þá hefur það vakið athygli mína að mikið af eldra fólkinu okkar bregst við þeirri umræðu með því að fara að tala um eldgos og jarðskjálfta, og það hvarflar stundum að manni að þarna sé hugsanlega um að ræða einhvers konar afleiðingar af gosinu.
Tók eftir því að nýlega var tekin ákvörðun um að setja aukið fjármagn til þess að hefja aftur áfallahjálp meðal fólksins sem lenti hvað verst í snjóflóðunum fyrir vestan, en eins og við vitum flest öll, þá er mikill fjöldi Eyjamanna sem flúði Vestmannaeyjar 1973 enn án þess að hafa fengið nokkra hjálp til þess að takast á við áfallið sem margir urðu fyrir í gosinu og fullt af fólki hefur aldrei komið aftur til Eyja eftir gos og ég velti því upp, hvort ekki væri, þó seint sé, tími til kominn að fara að veita einhverju af þessu fólki áfallahjálp, því klárlega mun fullt af fólki sem, að upplifði þá ógn sem fylgdi gosinu á sínum tíma, aldrei losna undan áfallinu sem því fylgdi.
Mig langar því að tileinka goslokahátíðinni í ár fólkinu sem aldrei kom aftur, í von um að það fari nú að láta sjá sig og sjá, hversu frábærlega okkur hefur tekist að byggja upp fallega bæinn okkar og að sjálfsögðu verður opið hús í Blíðukró á laugardagskvöldið.
Gleðilega goslokahátíð .
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst