Það er svo sem vel hægt að ímynda sér lessupar, þar sem önnur er íslandsmeistari í sleggjukasti, keyrir gamlan steypubíl á daginn, mætir svo heim á kvöldin og hlammar sér í grútdrullugum vinnugallanum beint í sófann, sem fíngerður, hlýðin en þögull makinn þolir ekki. Hugsanlega prumpar steypulessan líka eins og rámur saxafónn við matarborðið og skiptir ekki um naríur fyrr en það er komið alvöru bremsufar í þær. Þegar farið er að skemmta sér stendur steypulessan líklega við barinn og sturtar í sig þar til hún breytist í Ivan Rebroff og syngur Gaga li – gaga la, lendir svo stundum í slagsmálum við þá sem ekki vilja koma í hryggspennu eða fíla ekki Gagali. Skemmtanir enda svo örugglega með því að pena lessan þarf að hálf bera steypulessuna heim og vera svo gjörsamlega svefnlaus næsta sólarhringinn, veltandi fyrir sér lífinu með tárin í augunum, meðan steypulessan hrýtur eins og dráttarvél með alvarlegar gangtruflanir, skælbrosandi og dreymir um Evrópumet í dvergakasti og pallbíl á 330 tommu dekkjum.
Svo er kannski til hommapar, þar sem annar homminn er í ágætlega launuðu starfi, þannig að makinn þarf ekki að vinna úti. Sá sem er heimavinnandi sér um heimilið og passar vel upp á útlitið á sér, en eyðir því miður öllum peningunum sem makinn aflar, um leið og þeir birtast eða jafnvel áður. Það er algerlega útilokað að hann geti farið í bæinn með vinkonum sínum án þess að koma heim með spegil eða kertastjaka, honum finnst allt svo gasalega lekkert. Svo fer hann að sjálfsögðu í plokkun, litun, lagningu, vax, botox og detox og alskyns meðferðir. Í útbelgdum fataskápum heimilisins eru örugglega 100 skópör, tugir jakkafata og nokkur hundruð bolir og skyrtur, en þegar á að fara á mannamót fer hann á gjörsamlega á taugum og mátar allan lagerinn tvisvar, niðurstaðan, hann á aldrei neitt að fara í, og verður að fara í bæinn. Þessi hegðun fer alveg með fyrirvinnu hommann, þrátt fyrir ítrekaðar umræður og góð ráð, breytist ekkert, hann er alveg búinn á því og hefur fundið huggun í bjór og enska boltanum. Liggur bara í sófanum og andrúmloftið á heimilinu stjórnast af því hvort Liverpool vinnur eða tapar. Heimavinnandi hommann dreymir um að Liverpool verði heimsmeistari á þessu ári. Þá yrði lífið dásamlegt, annar rólegur í búðunum hinn brosandi á barnum.
Það var mikið rætt í þessum sjónvarpsþætti um það hvort kirkjur ættu að blessa hjónaband hinsegin fólks. Ein kerling sem rætt var við belgdist alveg út af hneykslun í þessari umræðu og spurði spyrilinn „ hvar heldur þú að þetta endi“. Ég veit ekki alveg hvað hún hugsaði. Kannski sá hún fyrir sér að í framtíðinni myndi prestur blessa samband karlmans og kameldýrs, mér finnst frekar ólíklegt að það muni gerast. Það þyrfti allavega að gera gagngerar breytingar á kirkjunni ef koma ætti fyrir fjölskyldu brúðarinnar.
Já, kannski er líf hinsegin fólks bara eins og annara. Fullt af öllu og engu. Afhverju ekki? Hinsegin fólk eru menn, karlar og konur. Bara borin í heiminn aðeins öðruvísi. Hvað er að því, það eru sennilega engar tvær manneskjur eins. Einn af aðalgaurunum í mannkynsögunni, Jesú Kristur, var heldur betur öðruvísi og hinsegin en naut og nýtur enn mikillar virðingar, fyrir visku og gott hjartalag. Hann var til dæmis eingetinn og gat labbað á vatni. Einn af helstu kostum Jesú Krists var umburðarlyndi, sem er afkvæmi kærleikans. Jesú var vel gefinn og vissi betur en flestir að við erum ekki öll eins. Hann borðaði með glæpamönnum og gleðikonum og sagði þegar menn vildu dæma og refsa „ sá yðar er syndlaus er kasti fyrsta steininum“ og mátaði alla. Jesú hefði ekki misst matarlystina þó hommi hefði setið við borðið og hefði örugglega mettað heila gleðigöngu með nokkrum kleinuhringjum, ef hún hefði verið svöng!
Ég hvet allar kirkjur veraldar til að blessa öll ástrík sambönd manna og sætta sig við það að við erum öll á einhvern hátt hinsegin.
Kynni mín af hommum og lesbíum eru á einn veg. Mér finnst þetta skemmtilegt fólk, fullt af hlýju og kærleika, sem helgast sennilega af mjög þroskandi lífsreynslu.
Páll Scheving Ingvarsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst