Það er nú ekki að ástæðulausu sem ég hætti að drekka, og það tók mig ekki langan tíma að átta mig á því að það væri of þægileg lausn á öllu í mínu lífi að fá mér í glas og skála fyrir lífinu. Ég fann fyrir auknu sjálfstrausti og meiri gleði en hversdagslega og ég naut þess að vera undir áhrifum. Þetta var heldur þægileg og auðveld leið til að tækla hversdagslegan veruleika og dagarnir þar sem ég fékk mér ekki í glas voru asskoti erfiðir eftir að hafa áttað mig á þeim veruleika sem var í boði þegar bjórinn var opnaður eða tappinn tekinn úr flöskunni.
En hvað um það – ég á eina uppáhalds sögu af djamminu þar sem ég fór á áramótaball í Týsheimilinu. Í mínu fínasta pússi skellti ég mér á ball! Dragfín, í rauðum fallegum kjól og bara nokkuð mikil skvísa þó ég segi sjálf frá. Þegar ég fór með kápuna mína í fatahengið þá fattaði ég að ég hafði ekki tekið með mér veski „ansans vandræði !“ Ég var í nýjum oroblu sokkabuxum sem höfðu það verkefni að halda neðri maganum inni (ef hann var þá einhver) og lyfta upp rasskinnunum.
Ég fékk þá snilldarhugmynd að setja 5000 kallinn sem ég kom með á ballið í buxnastrenginn á sokkabuxunum- því það var að mínu mati nokkuð öruggur staður. Ég skemmti mér vel á ballinu, sjálfstraustið orðið töluvert og gleðin uppúr öllu valdi. Ég hitti skólasystur mína sem er einu ári yngri en ég og við fórum að spjalla saman og enduðum svo á trúnó. Við spjölluðum og spjölluðum þangað til við tókum ákvörðun að skella okkur saman á klósettið, eins og stelpum sæmir á þessum aldri. Báðar vorum við nokkuð hressar og smelltum okkur saman inná klósettið. Hún settist fyrst á dolluna og létti á sér og þegar hún var búin var komið að mér. Ég settist niður og við héldum áfram að spjalla…. eftir smá stund þá segi ég… „ Veistu.. ég held að það sé eitthvað í rassgatinu á mér???“ ….. „Ha?“ segir hún og setur í brýrnar… ég veð þá með höndina í afturendann á mér og vitir menn…. Þangað var hann kominn 5000 kallinn! Ég mun sennilega aldrei gleyma viðbrögðum skólasystur minnar, hún leit á mig stórum augum og sagði með hökuna í bringunni „Var þetta í rassgatinu á þér??“
Ég held að hún hafi trúað því eitt augnablik að ég skiti peningum!
Ég man þetta eins og gerst hafi í gær og rifja þessa sögu upp reglulega þegar mig langar til að hlæja. Ég held að við eigum öll sögur af okkur sjálfum sem við skömmumst okkar pínulítið fyrir og deilum ekki með hverjum sem er, en það gerir heiminn svo miklu skemmtilegri að deila þessum sönnu sögum. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá erum við öll svo fullkomlega „mis“heppnuð.
Ást og gleði á ykkur öll
Fríða Hrönn
P.s.
Ég man ennþá hvar ég borgaði með þessum 5000 krónu seðli.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst