Á síðasta kjörtímabili fengu íbúar Vestmannaeyja að segja sitt álit um staðsetningu hótels í Hásteinsgryfjunni. Sett var á laggirnar íbúa-kosning þar sem lang flestir greiddu atkvæði rafrænt.
Einhverjir fögnuðu auknu lýðræði á þessum tímapunkti, á meðan aðrir gagnrýndu að kjörnir fulltrúar hafi verið kosnir til að taka ákvarðanir sem þessar og væru með þessu að skjóta sér undan því að taka erfiðar ákvarðanir.
Sjálfur taldi ég að þetta væri fordæmisgefandi og framvegis fengju íbúar Vestmannaeyja að segja sitt álit í öllum stærri málum. Ekki hefur þó orðið af því. Kannski hafa ekki enn komið upp viðlíka stór mál. En hefði til að mynda ekki mátt spyrja bæjarbúa útí byggingu Eldheima áður en lagt var af stað?
Þar er kostnaðurinn kominn uppí tæpann einn milljarð króna og verkinu ekki lokið enn. Meira per. íbúa hér en Harpan kostaði per. íbúa í Reykjavík*. Ekki er ég þó að segja að hér hafi verið misráðið að ráðast í byggingu gosminjasafnsins. Alls ekki. Safnið er glæsilegt og full þörf á slíku safni í bæ okkar. Ég hefði að öllum líkindum greitt því atkvæði í íbúakosningum – ef þær hefðu farið fram.
Nú langar mig að varpa fram spurningu. Hafa bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum sett sér reglur um það hvaða mál það eru sem að eiga að fara í íbúa-kosningu?
Eru það ákvarðanir sem kosta mikið, eða sem snúa að þjónustu við okkur bæjarbúa, nú eða bara skipulagsmál. Eða var það bara í þessu eina máli sem kjörna fulltrúa langaði að vita hug bæjarbúa?
Búið er að sýna fram á að hægt er að framkvæma slíkar kosningar með tiltölulega einföldum hætti og fordæmið komið.
Nú er það bara spurningin – var kosningin um Hásteinshótelið bara sett fram vegna þess að bæjarstjórn treysti sér ekki í ákvörðunina eða vegna breyttra vinnubragðra bæjaryfirvalda?
Spyr sá sem ekki veit!
Tryggvi Már Sæmundsson.
*Kostnaður Harpa = 17.500.000.000, íbúafjöldi í Reykjavík = 119.764. Kostnaður per íbúa = 146.121 kr
*Kostnaður Eldheima = 902.000.000, Íbúafjöldi í Vestmannaeyjum = 4.221. Kostnaður per íbúa = 213.693 kr.
*Tekið skal fram að þetta er heildarkostnaðaráætlun við Eldheima – án tillits til ríkisstyrks og endurgreiðslu á virðisaukaskatti.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst