Þá liggur ákvörðun ríkistjórnar loks fyrr. Jarðgöngin til Eyja hafa verið slegin af þar sem kostnaður er talin of mikill.
Þetta eru að sjálfsögðu vonbrigði fyrir mig og alla aðra áhugamenn um bættar samgöngur að búið sé að slá jarðgöng af. En í ljósi kostnaðarmats þá kemur ákvörðun ríkisstjórnarinnar svo sem ekki á óvart. Að svo stöddu er ekki tímabært að segja til um hvaða mat ég legg á skýrslu VST. Bæjarstjórn fékk skýrsluna afhenta í gær. Við fáum kynningu á henni á morgunn frá höfundum hennar. Við komum að sjálfsögðu ekki til með að gera athugasemdir nema þá að vel yfirlögðu ráði.
Hvað framtíðar kosti nú varðar þá liggur fyrir að bæjarstjórn hefur margítrekað fjallað
um samgöngur og forgangsraða þannig að séu jarðgöng ekki framkvæmanleg, annaðhvort
vegna kostnaðar eða einhvers annars, þá sé ferjulegi í Bakkafjöru næstbesti kosturinn.
Það er bara komið upp nýtt landslag í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnar og við komum
til með að skoða þetta landslag og gefa okkur tíma til að átta okkur á því
Ég sjálfur tel þó niðurstöðu ríkisstjórnarinnar ekki þýða endalok jarðganga til Vestmannaeyja. Ég hef þá trú að jarðgöng milli lands og Eyja muni koma fyrr eða síðar. Kostnaður við jarðgangagerð er alltaf að lækka en það þarf einhverja aðra lausn þar til að því kemur. Nú er hinsvegar algerlega ljóst að það þarf að leika millileik í stöðunni og það eru fleiri kostir
í stöðunni.
Besti kosturinn er ekki fær, en við berjum ekkert höfðinu í steininn með það að það þarf þá að leita annarra leiða.
Þær fimmtán ferðir sem Herjólfur mun fara aukalega á ári fram til 2010 er búbót en þessum ferðum var lofað í maí og við hefðum þurft á þeim að halda í sumar. Þetta er hinsvegar skref í rétt átt. Herjólfur er þjóðvegurinn til Vestmannaeyja. Fleiri ferðir þýða það að þjóðvegurinn
getur verið opinn meira. Það er vilji og krafa allra Íslendinga að geta ferðast eftir þjóðvegunum. En þetta er ekki nægjanlegt og það þarf meira til.
Ég get ekki lokið þessari færslu án þess að minnast lítilega á orð Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Í viðtali núna um daginn dró hún í efa að þeir sem unnið hafa að framgangi þessa máls hefði til að bera heilbrigða skynsemi. Í viðtali við Blaðið í dag segir hún svo:
“Ég sagði í viðtali við ykkur um daginn að heilbrigð skynsemi hefði sagt mönnum að þetta væri ekki raunhæft og það kallaði á sterk viðbrögð ýmissa aðila, meðal annars bæjarstjóra
Vestmannaeyja. En ég held að ég hafi verið að tala fyrir munn mjög margra landsmanna
í þessu sambandi.”
og bætir svo við:
“Þessi niðurstaða staðfestir það sem margir hafa talið í gegnum tíðina. Þetta er eyja og hefur alla tíð verið Það er því miklu skynsamlegra að einbeita sér að annarskonar samgöngum heldur en að vera endalaust að tala um þessi jarðgöng.”
Ég verð að viðurkenna að mér finnst fyrstu skref Steinunnar Valdísar í hlutverki formanns samgöngunefndar ekki gæfuleg. Hingað til hef ég nefnilega haft álit á þessari konu og oft þótt hún komast vel frá erfiðum málum. En að hún skuli hefa störf sem formaður samgöngunefndar á því að efast um heilbrigða skynsemi okkar, síðan að telja það hlutverk sitt sem þingmanns/formanns samgöngunefndar að básúna meinta skoðun landsmanna og bíta svo höfuðið af skömminni með því að telja þörf á því að benda Eyjamönnum á að þeir búi á Eyju.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst