Um 1.500 manns mótmæltu fyrirhuguðum niðurskurði ríkisstjórnarinnar á rekstri Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja á Stakkagerðistúninu síðdegist í dag. Hljóðið var þungt í fundarmönnum en þrír tóku til máls, Eygló Harðardóttir, þingmaður, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, sjúkraþjálfari og Elliði Vignisson, bæjarstjóri. Fundarmenn klöppuðu vel og innilega fyrir ræðumönnum sem voru afar harðorðir. Fundinum lauk svo við Heilbrigðisstofnunina þar sem fundarmenn mynduðu mannlegan og táknrænan hring í kringum stofnunina.