Elliði Vignisson, bæjarstjóri, staðfesti í samtali við Fréttir að Vestmannaeyjabær sé að leita að skipi sem getur þjónustað Vestmannaeyjar um Landeyjahöfn, ef til þess kemur að Herjólfur verði látinn sigla til Þorlákshafnar næsta vetur. Leitin er á frumstigi en nokkur skip hafa komið upp á borðið. „Við ákváðum að kanna þessa leið þegar fyrir lá að til skoðunar er að Herjólfur sigli í Þorlákshöfn í vetur. Við getum ekki beðið og horft á tækifærin tekin af okkur með því að svipta okkur samgönguleið sem sýnt hefur að er alger bylting fyrir samfélagið,“ sagði Elliði.