Sigursveinn Þórðarson, viðskiptalögfræðingur, fékk ekki mikinn tíma til að ákveða sig þegar hann var beðinn um að taka efsta sætið á lista Hægri grænna í Suðurkjördæmi. Það var hringt í hann um miðja síðustu viku og á landsfundi flokksins á laugardaginn var teningunum kastað, hann var tilbúinn í slaginn. Sigursveinn hefur ekki áður haft afskipti af stjórnmálum en fjölskylda hans hefur yfirleitt verið tengd Sjálfstæðisflokknum í Vestmannaeyjum. Í gegnum hana hefur hann fylgst vel með því sem er að gerast í pólitíkinni og á öðrum sviðum þjóðlífsins.