Davíð Egilsson yfirlæknir á HSU í Eyjum og Þórunn Pálsdóttir hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir í Vestmannaeyjum fóru síðastliðinn fimmtudag til Afríku í hjálparstarf og verða í tvær vikur. Þau fóru út ásamt ljósmæðrum frá Björkinni og Eyjakonunni Þóru Hrönn Sigurjónsdóttur en hún rekur sem kunnugt er heilsugæslu í Kubuneh í Gambíu.
Má ekki nota á Íslandi en gagnast vel í Gambíu
Þau fluttu með sér mikið af útrunnum hjúkrunarvörum sem ekki má nota á Íslandi vegna dagsetningar en eru enn í góðu lagi og gagnast vel í Gambíu. Þau munu koma til með að starfa á heilsugæslunni í ferðinni, segir í frétt á vefsíðu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Þar segir jafnframt að Heilbrigðisstofnun Suðurlands leggi sig fram við að gera sífellt betur í umhverfismálum og hefur í dag náð öllum grænu skrefunum. Einn liður í þeirri vinnu er að hámarka nýtingu á vörum sem stofnunin kaupir. „Nú söfnum við útrunnum hjúkrunarvörum sem Þóra tekur með sér þegar hún ferðast til Kubuneh.“ segir í fréttinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst