Gíslína Dögg Bjarkadóttir, listakona tók stóra ákvörðun í vetur þegar hún ákvað að helga sig listinni eingöngu. Um leið sýndi Gíslína að hún er ekki kona einhöm því áður hafði hún breytt úr hefðbundna málverkinu yfir í grafík en viðfangsefnið er það sama, konan sem hefur verið áberandi í verkum hennar og myndir þar sem hún leikur sér með mynstur. Gíslína verður með sýningu á verkum sínum í Safnaðarheimilinu um Goslokahelgina.
Sýninguna í Safnaðarheimilinu kallar hún „Mitt á milli“ og vísar ef til vill til þess að núna er Gíslína komin yfir í grafík auk þess að ætla að helga sig listinni eingöngu. „Ég hef verið í grafíkinni frá 2016 og vinn talsvert í Reykjvík. Ég gekk í Íslenska grafíkfélagið sem er með æðislegt verkstæði í sama húsi og Listasafn Reykjavíkur sem ég hef aðgang að. Það er því miður búið að segja þeim upp húsnæðinu en vonandi finnst annað hentugt húsnæði.“
Gíslína tekur vinnutarnir í Reykjavík þar sem hún sækir líka námskeið auk þess að kynnast listafólki, bæði innlendu og erlendu sem skiptir svo miklu máli. „Mér finnst grafíklistin vera á uppleið og er mjög spennandi að taka þátt í því. Á verkstæðinu upplifir maður mismunandi strauma í listinni og það eru allir tilbúnir að segja manni til og leiðbeina. Þar myndast líka tengsl sem ég ætla að nýta mér í framtíðinni, bæði hér heima og erlendis. Ég vinn verkin með mismunandi tækni og í Eyjum hef ég t.d. nýtt mér Fablabstofuna hjá Frosta til að gera tréristur.“
Í janúar ákvað Gíslína að hætta hefðbundinni vinnu og helga sig listinni eingöngu og horfir hún björtum augum fram á við. „Þetta er draumurinn og ég er bjartsýn. Fyrsta stóra skrefið er sýningin í Safnaðarheimilinu sem er að hluta til sölusýning. Sýninguna kalla ég „Mitt á milli“ og þar verða 30 til 40 verk en það gæti breyst,“ segir Gíslína og skrefið er kannski ekki svo stórt þó hún hafi stigið yfir í grafíkina. „Það er alltaf konan sem er bakvið flest sem ég geri. Ég hef líkað skoðað verk Sigurðar Guðmundssonar, málara sem hannaði íslenska kvenbúningin. Í honum er mynstur sem ég leik mér með og geri að mínum,“ segir Gíslína sem á sér þann draum að koma sér upp vinnustofu í Eyjum.
„Ég er með ágætis aðstöðu heima en mig langar í sérstaka vinnustofu sem gæti verið aðdráttarafl fyrir aðra listamenn að nýta sér og dvelja hér um tíma. Fyrsta skrefið er grafíkpressa sem ég ætla að kaupa í haust. Mörg verkin á sýningunni vísa til þeirra fjölmörgu kvenna, sem í gegnum aldirnar hafa unnið sín mikilvægu störf í hljóði – þetta er óður til allra þeirra nafnlausu kvenna sem í raun sköpuðu söguna, listina og lífið. Þessar konur tengdu lífskeðju kynslóðanna saman, lifðu sem nafnlausar hversdagshetjur og eru gleymdar flestu fólki í dag.“ segir Gíslína sem vonast til að sjá sem flesta á sýningunni í Safnaðarheimilinu sem hún opnar kl. 18.30 á fimmtudaginn.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Ekki liggja fyrir nýjar mælingar
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.