Venju samkvæmt var mikið fjör í gær á föstudegi á Goslokahátíð. Fjölmennt var í bænum og létu hátíðargestir sig ekki vanta í rjómablíðunni á Bárustíg, en þar var tónlist og grillaðar pylsur í boði Landsbankans. Leikfélag Vestmannaeyja var á vappi um svæðið og Litla skvísubúðin stóð fyrir glæsilegri tískusýningu. Íþróttafélagið Ægir bauð upp á kennslu í boccia og Bryndís Jónsdóttir, íþróttakennari, var með leiki fyrir börnin á Stakkagerðistúni.
Síðar um kvöldið efndu Bjartmar og Bergrisarnir til tónleika í stappfullri Höllinni. Þar fluttu félagarnir bestu lög Bjartmars og strax á eftir tók við goslokaball með Sibba og Lundunum.
Hinum megin í bænum á Lundanum sá Erpur Eyvindarson, betur þekktur undir nafninu Blaz Roca, um að skemmta lýðnum ásamt rapparanum Blaffa og lækninum og plötusnúðnum Doctor Victor.
Myndir frá gærdeginum má sjá að neðan.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst