Í vor tók stjórn Herjólfs ohf. þá ákvörðun að fjölga ferðum Herjólfs úr sjö í átta á tímabilinu 1. Júlí til 11. Ágúst til að svara vaxandi eftirspurn en farþegum og bílum hefur fjölgað mikið síðustu tvö ár.
Dregið úr biðlistavanda
Við heimamenn höfum undanfarin ár fundið vel fyrir aukinni sumarumferð með ferjunni með tilheyrandi biðlistum og að þurfa að haga ferðum eftir lausu plássi en fjölgun ferða hefur gert það áþreifanlega auðveldara fyrir okkur heimamenn að fara ferða okkar eftir eigin þörfum en ekki því sem hentar biðlistum.
Ráðum okkur sjálf
Sú ákvörðun sveitarfélagsins að taka yfir rekstur Herjólfs var og er eflaust enn ekki óumdeild en áhrifin og afleiðingarnar eru fullkomlega í takt við væntingar bæjarstjórnar þess tíma. Við þessa jákvæðu ákvörðun stjórnar Herjólfs ohf. fyrir samfélagið í Eyjum þurfti hvorki að eiga samtal við hagnaðardrifin risafyrirtæki né marga fundi eða pólitískan þrýsting í samgönguráðuneytinu heldur tók stjórn Herjólfs ohf. ákvörðun til að koma til móts við aukna eftirspurn og bæta þjónustu við viðskiptavini félagsins en ekki síst samfélagið sjálft.
Ekki sjálfsagt að vel takist
Það er alveg ljóst að áhöfn, starfsfólk og stjórn Herjólfs ásamt starfsfólki Vestmannaeyjahafnar eiga mikið hrós og þakkir skildar fyrir hversu vel þessi breyting hefur tekist. Ég á reglulega leið niður á höfn þegar Herjólfur leggst að og er augljóst að fumlaus og skipulögð vinnubrögð allra tryggja að jafn stíf áætlun hefur haldið jafn vel í allt sumar og raun ber vitni. Það voru vissulega uppi úrtöluraddir í aðdragandanum eins og svo oft áður að þetta myndi yfir höfuð ganga upp en sömu raddir hafa nú snarþagnað.
Takk fyrir mig og gangi ykkur vel
Vestmannaeyjabær í samstarfi við Ferðamálasamtök Vestmannaeyja lagði fyrir nokkru af stað í öfluga markaðsherferð sem skilaði sjáanlegum árangri og þessi breyting er því ekki síst ein af fjölmörgum áhrifum þeirrar markaðssetningar. Ég bind vonir við að ákvörðun um fjölgun ferða verði endurtekin næsta ár og tímabilið muni sífellt lengjast jafnt og þétt frá ári til árs.
Nú þegar stærsta ferðahelgin er framundan, Þjóðhátíðin sjálf, vil ég persónulega þakka stjórn Herjólfs, áhöfn Herjólfs og starfsfólki og ekki síst starfsfólki Vestmannaeyjahafnar fyrir að hafa bætt lífsgæði okkar Eyjamanna og óska ykkur góðs gengis í annasömum dögum framundan.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst