Ólympíuleikarnir í París voru settir sl. föstudag 26. júlí og standa til sunnudagsins 11. ágúst. Íslenski Ólympíuhópurinn telur alls 26 manns en meðal þeirra er tannlæknirinn og Eyjamærin Íris Þórsdóttir sem er stödd á leikunum í hlutverki sjálfboðaliða. Íris er í sambúð með Haraldri Pálssyni fyrrverandi framkvæmdastjóra ÍBV íþróttafélags og eiga þau saman þrjú börn. Við fengum að heyra í Írisi áður en hún hélt til Parísar.
Íris rak augun í auglýsingu frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) á Instagram í lok október 2022 sem var á þá leið að þeir leituðu að einstaklingi sem talaði frönsku og hefði áhuga á að fara sem sjálfboðaliði á Ólympíuleikana. Þetta er í fyrsta skiptið sem ÍSÍ hefur fengið að velja þennan einstakling en sjálfboðaliðinn þarf sjálfur að sjá um umsóknina sína til Alþjóðaólympíusambandsins (IOC). Tekið var fram að viðkomandi þyrfti að vera að minnsta kosti 18 ára, með bílpróf og með góða skipulags- og samskiptahæfileika.
Efins með að sækja um
„Ég var satt að segja pínu efins með að sækja um því mér fannst ég vera alltof gömul fyrir þetta og fannst eins og umsækjendur yrðu pottþétt mikið yngri en ég. Svo að kvöldi 20. nóvember ákvað ég að henda bara inn umsókn og sé sko ekki eftir því í dag“ segir Íris og bætir við að þarna hafi hún verið kasólétt og hún eignaðist Rut dóttur sína svo morguninn 22. nóvember.
„Ég var boðuð í viðtal með Kristínu Birnu Ólafsdóttur og Brynju Guðjónsdóttur hjá ÍSÍ þann 28. nóvember, þá alveg úti á túni með nýtt barn og steingleymdi viðtalinu, en áttaði mig nokkrum klukkutímum seinna og hringdi í algjöru panikki, en þær höfðu sem betur fer skilning á þessu öllu saman.“
Síðan þá hefur Íris þurft að senda inn hin ýmsu gögn til IOC, afrit af ökuskírteini, passamynd, afrit af vegabréfi og þess háttar. Einnig hefur hún verið í þjálfun fyrir verkefnið með kúrsum á netinu þar sem farið hefur verið yfir almennar reglur leikanna, þjónustulund og fagmennsku, samfélagsmiðlareglur og skipulag svo fátt eitt sé nefnt.
Keyrt í lögreglufylgd í gegnum borgina
Hluti af þjálfun sjálfboðaliðanna var ráðstefna í París 23. mars sl. sem var einskonar æfing fyrir skipuleggjendur Ólympíuleikanna en hún var haldin á Paris La Defense Arena, sem síðan þá hefur verið breytt í sundhöll þar sem sundkeppnin fer fram.
…
Greinina má lesa í heild sinni í 14. tbl. Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst