Pysjutímabilið í ár stóð frá ágúst og fram i september sem er hinn hefðbundni tími. Pysjurnar voru vel á sig komnar sem staðfesti frásagnir lundakarla um að mikið hefði verið um sílisfugl seinni hluta sumars. Síli er aðalfæða lundans og samkvæmt Hafró eru mörg ár síðan jafnmikið hefur fundist af því við Suðurströndina. Pysjueftirlitið, sem hefur starfað frá árinu 2003 fékk til sín upplýsingar um 4238 pysjur í ár en trúlega hefur mun fleiri verið bjargað og komið í sjóinn.
Á undanförnum árum hefur verið mikill pysjudauði og tímabilið oft seinna en venja er. Ástæðan var að sílið vantaði og lundinn varð að sækja mun lengra í æti. Í eðlilegu árferði byrjar pysjan að hugsa sér til hreyfings úr holum seinnihluta ágúst og byrjun september. Flestar taka flugið á haf út en pysjur í fjöllunum í kringum bæinn fljúga á ljósin og lenda ýmist í bænum eða í höfninni.
Þá kemur til kasta björgunarsveitanna, krakka á öllum aldri sem flykkjast út í leit að pysjum til að bjarga. Þeim er safnað í kassa og daginn eftir er farið inn á Eiði, austur á hraun, suður í Klauf eða vestur á Hamar til að sleppa þeim á haf út.
Allt að 10.000 pysjur
Hlutverk Pysjueftirlitsins frá upphafi hefur verið að meta ástand og fjölda þeirra pysja sem lenda í bænum ár hvert. Árin á undan höfðu þær verið óvenju fáar og áhugi að skoða þróunina nánar.
Í ár voru skráðar 4238 pysjur og 1487 vigtaðar. Meðalþyngd var 308 grömm sem telst gott. Sú þyngsta var 500 gr. og sú léttasta 116 gr. Þessar upplýsingar er að finna á heimasíðu Pysjueftirlitsins sem er undir hatti Þekkingarsetursins.
„Það er ánægjulegt að nú virðist lundastofninn í Vestmannaeyjum vera að ná sér á strik,“ sagði Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarsetursins. „Þetta er með því mesta sem komið hefur inn á borð hjá okkur. Við vitum að ferðamenn sem koma hingað til að taka þátt í pysjubjörgunni og fleiri láta okkur ekki vita. Þannig að við áætlum að allt að 10.000 pysjum hafi verið bjargað í Vestmannaeyjum þetta árið.“



























Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Ekki liggja fyrir nýjar mælingar
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.