Árshlutareikningur HS Veitna hf. fyrir fyrri hluta ársins 2024 var samþykktur á fundi stjórnar í síðasta mánuði. Heildarhagnaður á fyrri hluta ársins 2024 var 497 m.kr. á móti hagnaði á sama tímabili árið 2023 upp á 316 m.kr.
EBITDA var á fyrri helmingi ársins 2024 1.881 m.kr. (35,48%) á móti 1.877 m.kr. (37,8%) á sama tímabili árið 2023. Fjárhagsstaða er sterk og horfur góðar. Eiginfjárhlutfall þann 30. júní 2024 er 45,7% en var 43,8% á sama tíma 2023.
Veltufjárhlutfall var 1,41 þann 30. júní 2024 samanborið við 1,41 í lok sama tímabils 2023, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Þá segir í samandregnu árshlutauppgjöri að raforkuöryggi sé ábótavant í Vestmannaeyjum en þar horfir þó til betri vegar því Landsnet hefur áform um að leggja tvo nýja rafstrengi og áætlar að því verki ljúki síðari hluta ársins 2025.
Neðansjávarlögn Vestmannaeyjabæjar sem flytur kalt vatn til Eyja skemmdist þegar Huginn VE55 olli tjóni á henni. HS Veitur eiga og reka vatnsveituna í Vestmannaeyjum og hafa afnotarétt af neðansjávarlögn til að flytja neysluvatn frá landi til Eyja og hafa fyrirframgreitt Vestmannaeyjabæ fyrir afnotin til ársins 2044.
Samkvæmt samningi sjá HS Veitur um rekstur neðansjávarlagnarinnar og hafa verið í aðgerðum til að tryggja að vatn berist áfram um lögnina. HS Veitur hafa með vísun í forsendubrest og vanefndir á samningi óskað eftir að Vestmannaeyjabær leysi til sín vatnsveituna. Óvissa er uppi um endanleg málalok vegna þessa.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst