Á sunnudaginn næstkomandi fundar kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Þar verður tekin fyrir tillaga stjórnar kjördæmisráðs um að viðhafa röðun við val á efstu 6 sætum á framboðslista flokksins fyrir næstu alþingiskosningar.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur í dag fjóra þingmenn í kjördæminu, en Birgir Þórarinsson var kosinn fyrir Miðflokkinn. Hann gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn skömmu eftir síðustu þingkosningar. Jarl Sigurgeirsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi segir í samtali við Eyjafréttir að hann hafi ekki endanlega gert upp hug minn varðandi setu á lista fyrir komandi kosningar.
„Við sjálfstæðismenn munum hittast á fundi kjördæmaráðs á sunnudag þar sem viðhöfð verður röðun í efstu sæti framboðslista og kjörnefnd mun raða upp í sætin þar fyrir neðan. Ég finn að komin er stemning í mannskapinn. Við sjálfstæðismenn í góðum gír og fullir tilhlökkunar að heyja snarpa kosningabaráttu.” segir Jarl.
Uppi hefur verið orðrómur um að Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins sé að íhuga framboð í Suðurkjördæmi. Brynjar hefur áður verið þingmaður í báðum Reykjavíkur-kjördæmunum. Í samtali við Eyjafréttir segir Brynjar að hann hafi sagt að hann sé tilbúinn ef það er einhver eftirspurn eftir honum. „Ég er ekki búinn að gera upp hug minn, en þarf klárlega að gera það á næstu dögum.“ Aðspurður um Suðurkjördæmi segir hann að það komi alveg til greina. „Ég þekki kjördæmið vel. Það er oft sagt að ég sé hálfur Eyjamaður, svo þekki ég vel til bæði í Árnessýslu sem og á Reykjanesi.“ segir hann og bætir við að hann sjái mikil tækifæri í kjördæminu.
En hefur Brynjar fengið hvatningu frá íbúum Suðurkjördæmis? Já, talsverða, en einnig úr fleiri kjördæmum. T.d. úr Norðvestur kjördæmi, þangað sem ég á ættir að rekja. Hann segir að hann taki áskorununum alvarlega og ætlar Brynjar að íhuga framboð vandlega næstu tvo sólarhringa eða svo.
Samkvæmt heimildum Eyjafrétta sækjast þau þrjú sem skipuðu efstu sætin í síðustu kosningum öll eftir að taka sæti á listanum. Þau Guðrún Hafsteinsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Ásmundur Friðriksson.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst