Bæjarráð samþykkti í morgun samhljóða að auglýsa eftir aðilum til að byggja heilsurækt við íþróttahúsið og reka hana. Fram kemur í fundargerðinni að fulltrúar Vestmannaeyjabæjar hafi fundað með þeim aðilum sem óskuðu eftir samtali um uppbyggingu heilsuræktar við Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja.
Annars vegar er um að ræða eigendur World Class og hins vegar Eygló Egilsdóttur, Garðar H. Eyjólfsson, Leif Geir Hafsteinsson og Þröst Jón Sigurðsson. Sýndu báðir aðilar mikinn áhuga á að koma að byggingu og rekstri heilsuræktar við Íþróttamiðstöðina.
Eins og áður segir samþykkti ráðið samhljóða að auglýsa eftir aðilum til verksins í því ljósi að þar sem fleiri en einn aðili hefur sýnt því áhuga að taka verkið að sér. Ráðið fól bæjarstjóra og framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að útbúa auglýsingu í samræmi við umræðu á fundinum og auglýsa í framhaldinu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst