Fimleikafélagið Rán tók þátt í bikarmóti í hópfimleikum í Egilshöll síðustu helgi. Félagið sendi alls fjóra hópa til keppni – tvö lið í 3. flokki, auk liða í 2. og 1. flokki.
Liðið í 2. flokki náði frábærum árangri og hafnaði í þriðja sæti í sínum flokki. Keppendur voru til fyrirmyndar á mótinu og sýndu glæsilega takta og mikinn metnað.
Margar af stelpunum voru að prófa sig áfram með nýjar og erfiðari æfingar og stökk og gekk það ótrúlega vel hjá þeim að sögn Sigurbjargar Jónu þjálfara hópsins. ,,Einnig tóku nokkrar af yngri stelpunum þátt með eldri hópunum og kepptu upp fyrir sig, og var virkilega gaman að sjá hversu vel þær héldu í við hinar”, segir hún að lokum.
Fimleikafélagið Rán hefur verið að byggja upp öflugt hópfimleikastarf undanfarin ár og endurspeglaði árangurinn á mótinu þá vinnu sem lagt hefur verið í æfingar. Eyjafréttir óskar fimleikafélaginu Rán innilega til hamingju.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst