Guðbjörg Rún Gyðudóttir Vestmann er 26 ára og kemur frá Vestfjörðum. Guðbjörg flutti til Eyja árið 2020 og hefur síðan þá fundið sig vel í samfélaginu. Hún starfar í dag hjá Geisla þar sem hún sérhæfir sig í ljósleiðaratengingum og nýtur fjölbreytileikans í vinnunni vel. Guðbjörg er Eyjamaðurinn að þessu sinni og fengum við að spyrja hana nokkurra spurninga.
Fullt nafn? Guðbjörg Rún Gyðudóttir Vestmann.
Fjölskylda? Konan mín heitir Ingunn Silja og saman eigum við tvo hunda.
Mottó? Það er sama hvað þú gerir í lífinu, svo framanlega sem þú leggur þig alla/n fram við þann hlut.
Síðasta hámhorfið? Ég horfi ekki mikið á sjónvarp. Ég hlusta eiginlega frekar á hljóðbækur. Ef ég horfi á eitthvað þá yfirleitt hætti ég að horfa í miðjum þætti og fer að gera eitthvað annað.
Uppáhalds hlaðvarp? Ég hlusta meira á hljóðbækur. Ég hlusta oftast á Harry Potter, en það sem ég er nýlega búin að vera hlusta á er ,,Hell Divers”, sem er sería sem vinur minn benti mér á. Sú sería kom mér virkilega á óvart og var mjög skemmtileg.
Aðaláhugamál? Ætli það sé ekki handavinna. Sama hvort það er að prjóna peysu, smíða bókahillu eða eitthvað annað. Bara almenn handavinna og sköpun myndi ég segja.
Eitthvað sem þú gerir á hverjum degi sem þú gætir ekki verið án? Já ég fer að ganga með hundinn minn. Fer upp á hundasvæði og paradísasvæðið í bænum ef ég er þar. Fyrir mér er það algjör hugleiðsla.
Hvað óttast þú mest? Ókyrrðina í heiminum. Ég vona að þessi ókyrrð fari að lægja og heimurinn komist í eitthvað betra ástand enn hann er í núna.
Hvað er velgengni fyrir þér? Velgengni fyrir mér er að vera hamingjusamur bæði í einka- og atvinnulífinu. Hafa það sem maður þarf til að líða vel og vera hamingjusamur í hvoru tveggja.
Hvað fellst í starfi þínu hjá Geisla? Ég er hluti af ljósleiðarateyminu þar, sem sagt ljósleiðaratengingum ,frágang og netlöggnum innanhús í þeim tilgangi að gefa fólki betra internet.
Hvað er það skemmtilegasta við starfið? Fjölbreytileikinn myndi ég segja, ég er aldrei að gera sama hlutinn tvo daga í röð. Þó svo að ég sé að leggja netlagnir í sitthvort húsið, sitthvorn daginn þá er það engann veginn það sama. Fyrri daginn er maður kannski að fara í gegnum lagnir en svo næsta dag gerir maður utanáliggjandi tengingar.
Eitthvað að lokum? Til allra kvenna og stelpna þarna úti: ,,Það skiptir ekki máli þó að starfið sem þig langar í sé karlríkjandi eða ekki. Ef þig langar í starfið þá skaltu fara á eftir því. “
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst