Rannveig Ísfjörð hefur nýverið hafið störf sem byggingarfulltrúi hjá Vestmannaeyjabæ. Rannveig er gift Pálma Harðarsyni og saman eiga þau fjögur börn. Hún flutti til Vestmannaeyja haustið 2011 og hefur búið hér síðan. Fyrstu starfsárin í Eyjum vann hún sem afgreiðslustjóri Herjólfs hjá Eimskip, en færði sig svo yfir í byggingargeirann og hefur unnið hjá Teiknistofu PZ, Mannvit (nú Cowi) og aftur hjá TPZ áður en hún tók við nýju starfi hjá bænum. Rannveig lauk B.Sc. gráðu í byggingartæknifræði með áherslu á framkvæmdir og lagnir, og síðar M.Sc. gráðu í byggingarverkfræði með áherslu á framkvæmdastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Hún er einnig löggiltur hönnuður aðal- og séruppdrátta frá árinu 2024, hefur lokið námi í verkefnastjórnun frá HR og er langt komin með meistaranám í forystu og stjórnun á sviði mannauðsmála við Háskólann á Bifröst. Rannveig veitti Eyjafréttum viðtal um starfið og gaf okkur innsýn í byggingar og framkvæmdir á döfinni.
Aukin eftirspurn í Vestmannaeyjum
Rannveig segir eftirspurn eftir lóðum í Vestmannaeyjum hafa aukist verulega undanfarin ár, bæði fyrir íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Þessi þróun endurspegli aukinn áhuga á búsetu og uppbyggingu í bænum, sem sjáist skýrt í framkvæmdum dagsins í dag. Samkvæmt mælaborði HMS eru nú 44 íbúðir í byggingu í Vestmannaeyjum, en hægt er að fylgjast með þróun byggingarmarkaðarins á landsvísu þar í gegnum opinber gögn.
Stærstu framkvæmdir sem nú eru í gangi á vegum bæjarins eru viðbygging við íþróttamiðstöðina og lagning gervigrass á Hásteinsvelli. Einnig stendur yfir lokafrágangur á nýrri deild leikskólans Kirkjugerðis. „Það er alltaf nóg að gera í framkvæmdum hjá bænum, hvort sem um er að ræða viðhald eldri bygginga eða nýframkvæmdir,“ segir Rannveig.
Rannveig hóf störf fyrr á árinu og segist líka starfið afar vel hingað til. „Ef ég ætti að nefna það sem mér finnst best við starfið, þá væri það án efa fjölbreytnin og það að fá að taka virkan þátt í uppbyggingu bæjarins,“ segir hún. Dagleg verkefni hennar snúa meðal annars að afgreiðslu byggingarleyfa, eftirliti með framkvæmdum og ráðgjöf við íbúa og fyrirtæki.
Þó fylgi starfinu einnig áskoranir – eins og að tryggja að framkvæmdir samræmist lögum og reglum og vinna í nánu samstarfi við hagsmunaaðila sem geta haft ólíkar skoðanir á skipulagsmálum – þá telur hún það vera hluta af spennandi og krefjandi starfsvettvangi. „Fyrir þá sem hafa áhuga á skipulagi og byggingarmálum, er þetta virkilega áhugavert starf,“ bætir hún við.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst