Richard Bjarki Guðmundsson rafvirki hefur unnið hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum frá janúar 2012 eða í um 13 ár. Rikki eins og hann er oftast kallaður er fæddur hér í Vestmannaeyjum árið 1980 og er giftur Ástu Hrönn Guðmannsdóttur, hárgreiðslukonu og saman eiga þau þrjú börn; Söru Dröfn, Birnir Andra og Heklu Hrönn.
Að loknu stúdentsprófi úr Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum tók Rikki sér smá hlé áður en hann hóf nám í rafvirkjun við Iðnskólann í Hafnarfirði. Þaðan lauk hann námi og hefur síðan þá aflað sér frekari menntunar og er í dag meistari í rafvirkjun sem og Marel tæknir frá Fisktækniskóla Íslands, sem er menntun sem nýtist honum í daglegu starfi.
Þess má geta að Rikki á einni sérstaka tengingu við Eyjafréttir, en hann bar blaðið í fjölda ára. „Ég byrjaði að bera út Fréttir árið 1992, eða um svipað leyti og blaðið varð áskriftarblað. Ég var með hverfi 2 í 23 ár – alveg þangað til árið 2015,“ segir Rikki. Við fengum að spjalla við Rikka varðandi störf hans hjá Vinnslustöðinni
„Starfið mitt hjá VSV er mjög fjölbreytt og enginn dagur er eins, segir Rikki. Við rafvirkjarnir sinnum öllu sem við kemur rafmagni hjá VSV og dótturfyrirtækjum þess bæði búnaði og fasteignum fyrirtækisins.
Rikki segir að margt hafi breyst á þeim tíma sem hann hefur unnið sem rafvirki. Tæknin í fiskvinnslu hefur til dæmis breyst mikið með árunum þar sem sjálfvirknin hefur aukist mjög mikið. Að hans mati eru breytingarnar jákvæðar þar sem þær bæta vinnuaðstöðu starfsfólks, skila betri gæðum afurða og auka afkastagetu.“
Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun hefur vinnan einnig sínar sveiflur. „Loðnuvertíðin hefur til dæmis bein áhrif á okkar störf. Í ár var hún lítil sem engin og það hefur auðvitað áhrif – bæði á okkur rafvirkjana og alla aðra sem koma að vinnslu,“ segir Rikki að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst