Í dag kvað Hæstiréttur upp dóma í málum Vinnslustöðvarinnar og Hugins (dótturfélags Vinnslustöðvarinnar) vegna úthlutunar ríkisins á aflaheimildum í makríl á árunum 2011 og 2018.
Bótaskylda ríkisins í málinu hafði verið staðfest í héraðsdómi og í Landsrétti en Landsréttur lækkaði bætur til Vinnslustöðvarinnar. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að máli Vinnslustöðvarinnar var vísað frá og bætur til Hugins voru lækkaðar úr 467 milljónum í 250 milljónir króna.
Í máli Vinnslustöðvarinnar taldi Hæstiréttur matsgerðina reista á ófullnægjandi forsendum vegna vöntunar á gögnum sem Vinnslustöðin hf. hefði átt að vera unnt að afla og leggja fram. Af því leiddi að matsgerðin byggðist á almennum forsendum og útreikningum sem ekki stæðu í beinum tengslum við atvik málsins. Þetta endurspeglaðist meðal annars í óviðunandi óvissumörkum í niðurstöðu matsgerðar en þau námu 30% til hækkunar eða lækkunar.
Hæstiréttur taldi að þótt erfiðleikum kynni að vera bundið fyrir Vinnslustöðina hf. að færa nákvæmar sönnur á fjárhæð ætlaðs tjóns síns yrði lagt til grundvallar að honum hefði verið unnt í mun ríkari mæli en raunin var að leggja fram sundurliðuð gögn um tekjur sínar og gjöld eftir tegundum og starfsþáttum á umræddu tímabili. Af þessum ástæðum brysti skilyrði til að ákveða Vinnslustöðinni bætur að álitum og yrði að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi vegna vanreifunar.
Í dómi Hæstaréttar í máli Hugins ehf. kemur fram að með hinni ólögmætu tilhögun á úthlutun aflaheimilda í makríl á fyrrgreindu árabili hefðu atvinnuréttindi Hugins ehf. verið skert. Þau nytu verndar 72. gr. stjórnarskrár en sú vernd væri takmarkaðri en vernd hefðbundinna eignarréttinda. Réði þar mestu að atvinnuréttindi væru háð óvissu um varanleika og efnislegt inntak, meðal annars vegna þess að löggjafanum væri ætlað víðtækt svigrúm til þess að grípa inn í nýtingu þeirra og ráðstöfun. Væri slík óvissa veruleg í tilviki mögulegrar nýtingar aflaheimilda í flökkustofni uppsjávarfisks eins og makríls. Hæstiréttur taldi ekki unnt að leggja afdráttarlaust til grundvallar að Huginn ehf. hefði fullnýtt þá viðbót í aflaheimildum sem kröfur hans miðuðust við.
Enn fremur yrði ekki talið að þau 10% vikmörk sem matsmenn miðuðu við vegna óvissuþátta næðu að fullu að fanga þá óvissu sem fyrir hendi væri um mögulega nýtingu Hugins ehf. á umræddum aflaheimildum. Yrðu niðurstöður matsgerðarinnar því ekki lagðar óbreyttar til grundvallar niðurstöðu í málinu svo sem gert var í hinum áfrýjaða dómi. Á hinn bóginn var talið að Huginn ehf. hefði sýnt nægilega fram á að hann hefði orðið fyrir nokkru fjárhagslegu tjóni af völdum þeirra bótaskyldu athafna ríkisins að standa með ólögmætum hætti að úthlutun aflaheimilda í makríl til Hugins ehf. á árunum 2011 til 2018. Voru því skilyrði talin til að dæma honum bætur að álitum og ríkið dæmt til að greiða Huginn ehf. 250.000.000 króna í bætur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst