„Hugmyndin kviknaði fyrir einu eða tveimur árum þegar við fórum að huga að því að yngja upp og endurnýja flotann okkar. Töldum of dýrt að fara í nýsmíði og hófum leit að notuðu skipi sem gæti hentað okkar útgerð. Það var svo í fyrravor sem við fengum tækifæri á að skoða þetta skip, Pathway frá Peterhead í Skotlandi sem var smíðað 2017 og notað á við þriggja til fjögurra ára notkun miðað við okkar útgerð,“ segir Eyþór Harðarson útgerðarstjóri Ísfélagsins um aðdraganda þess að félagið keypti nýtt skip, Heimaey VE 1 í stað eldri Heimaeyjar í upphafi sumars. „Heimaey fyrri er mikið happafley en það var kominn tími til að taka stökkið fram á við. Pathway er 8 árum yngra skip, nýrri hönnun og mun stærri og öflugri til að gera betur og er skref fram á við frá gömlu Heimaey sem var afhent í Síle árið 2012. Eldri Heimaey með 2000 m3 tankapláss á meðan þetta skip er með burðargetu uppá 2500 m3. “ Eftir að hafa skoðað skipið fyrir rúmu ári síðan var gerður samningur um kaup og afhendingu í maí 2025. „Þetta er hluti af endurnýjun á flotanum, að selja eldri skip, kaupa ný og öflugri og við teljum okkur vera með mjög gott skip í höndunum,“ segir Eyþór og tók sem dæmi af keyrslu á Sólbergi ÓF, frystitogara í eigu Ísfélagins og nýrri Heimaey sem eru jafngömul. „Frystitogarinn er ca 330 daga á ári á sjó sem gera tæplega 8000 klukkustundir á aðalvél á ári. Aðalvélin á nýju Heimaey er með tæplega 14.000 gangtíma sem þýðir að árleg notkun hefur verið um 2000 klukkustundir á ári. Auk þess er mjög vel gengið um skipið og því vel haldið við. Nánast hægt að fara á sokkaleistunum um allt skip,“ segir Eyþór.
Danirnir þeir bestu
Og hann er ánægður með nýja skipið. „Karstensens skipasmíðastöðin í Skagen er annáluð fyrir að smíða bestu uppsjávarskipin í heiminum í dag og verkefnastaðan þannig að þeir eru með mörg skip í smíðum sem þeir afhenda í röðum. Þar vilja menn láta smíða uppsjávarskipin og ekkert skrýtið. Þeir eru einfaldlega fremstir í sínu fagi, Danirnir.“ Skipstjórar eru Ólafur Einarsson og Sigurður Rúnar Sigfússon og yfirvélstjórar eru Fannar Veigar og Ágúst Halldórsson. „Þetta er 15 manna hópur sem er á Heimaey, í skiptikerfum og sama áhöfnin sem tekur við nýrri Heimaey. Þetta er framför í útgerð en það var í apríl á síðasta ári sem við gengum frá þessum kaupsamningi. Hefði það gerst í dag í ljósi pólitískra vendinga? Spyr sá sem ekki veit og kannski, sem betur fer vorum við búnir á klára þessi kaup áður en ósköpin dynja yfir,“ segir Eyþór og vitnar til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að tvöfalda veiðigjöldin. „Við vorum bjartsýnni þá.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst