Kvennalið ÍBV er komið upp í bestu deildina eftir 0-2 útisigur á Keflavík er liðin mættust í 15. umferð Lengjudeildar kvenna í kvöld. Eyjakonur komust yfir í leiknum á 18. mínútu með marki frá Allison Grace Lowrey. Staðan 0-1 í hálfleik. Allison var svo aftur á ferðinni í síðari hálfleik þegar hún skoraði af vítapunktinum á 55. mínútu. Allison er nú komin með 18 mörk í deildinni og er markahæst.
Eftir leikinn eru Eyjakonur komnar með 40 stig á toppnum þegar þrír leikir eru eftir og geta ekki endað neðar en í öðru sæti deildarinnar. Tvö efstu liðin fara upp í Bestu deildina. Frábær árangur hjá Eyjakonum sem eru vel að þessu komnar.
Næsti leikur ÍBV er heimaleikur fimmtudaginn 21. ágúst gegn HK en þær sitja í 2. sæti deildarinnar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst