Kári Kristján Kristjánsson spilar ekki með ÍBV í Olís-deildinni í vetur og mun aldrei leika aftur í treyju ÍBV. Þetta staðfesti hann í löngu og ítarlegu hlaðvarpsviðtali við Handkastið í gærkvöldi.
Í viðtalinu fer hann ítarlega yfir tímalínu samningaviðræðna hans við ÍBV sem hófust í maí og lauk í síðustu viku. Þar segir Kári frá því að framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar ÍBV, Þorlákur Sigurjónsson hafi haft samband við hann símleiðis og tilkynnt honum það að hann fengi ekki samning við félagið eins og talað hafi verið um í munnlegu samkomulagi milli þeirra fyrr í sumar. Nú er ferill hans í óvissu og telur Kári afar litlar líkur á því að hann spili handbolta aftur.
Kári Kristján verður 41 árs í október en hann hefur spilað með ÍBV sl. tíu ár. Hann hefur unnið tvo Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla með ÍBV.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst