Páll Guðjónsson fæddist 1950 í Reykjavík og fluttist þriggja ára til Vestmannaeyja þar sem hann bjó til átta ára aldurs. Faðir Páls Guðjónssonar var Guðjón Pálsson, hljóðfæraleikari og tónlistakennari frá Eyjum. Að loknu námi í viðskiptafræði réðist hann sem bæjarritari hjá Vestmannaeyjabæ 1978 til 1982. Á erilsömum árum þegar verið var að ljúka uppbyggingunni í Eyjum eftir gos. Var í tíu ár sveitarstjóri og síðar bæjarstjóri í Mosfellsbæ og hefur síðan leitt ýmis fyrirtæki og einstök verkefni á sviði sveitarfélaga. Var m.a. í nokkur ár framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
„Ljósmyndun er mitt áhugamál og ástríða og hefur verið frá því ég eignaðist mína fyrstu myndavél tólf ára gamall. Þegar stafræna ljósmyndabyltingin hófst 2003 ákvað ég að taka eina ljósmynd á dag og birta á tilteknu vefsvæði í heilt ár. Þetta var verulegt lærdómsferli, ekki bara í ljósmyndun, heldur líka í skipulegum vinnubrögðum og sjálfsaga.
Í tengslum við þetta áhugamál hef ég sett upp ljósmyndasýningar bæði hér heima og í Arkangelsk í Rússlandi í boði norrænu ráðherranefndarinnar, auk þátttöku í nokkrum samsýningum,“ segir Páll í afmælisdálki Morgunblaðsins.
„Ég hef verið að skanna allt filmusafnið mitt, um 15 þúsund myndir og set af og til inn á Heimaklett myndir frá Eyjum sem ég held að fólk hafi ánægju af að sjá. Filmusafnið nær til ársins 2003 en þá fór ég alfarið yfir í stafræna ljósmyndun og í dag er ég með um 170 þúsund stafrænar myndir í mínu safni,“ segir Páll sem sendi okkur þessar myndir sem hann tók á Þjóðhátíð á síðustu öld.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst