Vestmannaeyjabær hefur tekið í notkun nýjan þjónustubíl sem ætlaður er til að styðja við aldraða og fatlaða í samfélaginu. Í frétt á vefsvæði bæjaryfirvalda segir að bíllinn sé sérútbúinn og rúmar tvo hjólastóla auk átta sæta, og mun gegna lykilhlutverki í því að auðvelda fólki sem ekki getur keyrt sjálft að komast til og frá daglegum viðfangsefnum.
Markmið þjónustunnar er að gera einstaklingum með fötlun kleift að stunda vinnu og nám, sækja sjúkraþjálfun, læknisþjónustu og aðra sérhæfða þjónustu sem nauðsynleg er vegna fötlunar þeirra. Þjónustan er mikilvægur þáttur í að tryggja jafnt aðgengi og virka þátttöku í samfélaginu.
Ellilífeyrisþegar sem nýta sér dagvist aldraðra og tómstundir á Hraunbúðum geta sótt um akstursþjónustu. Þeir sem sækja dagvistun geta jafnframt sótt um akstur í sjúkraþjálfun og til læknis.
Ármann Halldór Jensson ekur þjónustubílnum. Hann hefur getið sér einstaklega góðs orðs fyrir hlýlegt viðmót og þjónustulund. Ármann er ávallt reiðubúinn að veita aðstoð og hefur hlotið mikla virðingu og þakklæti frá skjólstæðingum sínum.
Með tilkomu nýja bílsins styrkist þjónusta við þá sem þurfa á henni að halda og er þetta skref í átt að enn betra og aðgengilegra samfélagi fyrir alla íbúa Vestmannaeyja, segir að endingu í fréttinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst