Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins var fyrstur á mælendaskrá undir liðnum um störf þingsins á þingfundi í dag. Þar ræddi hann þjóðlendumálið, svokallaða. Hann sagði að það væri of langt mál að fara yfir þann hrikalega leiðangur fjármálaráðherra varðandi kröfulýsingar um þjóðlendur, eyjar og sker.
„Komið hafa fram kröfur í nafni ráðherra á fyrri stigum sem hefur verið fallið frá eftir hörð og réttmæt mótmæli. En fjármálaráðuneytið hagar sér þó enn eins og ríki í ríkinu og heldur til streitu ýmsum kröfum í nafni ríkisins sem furðu sæta. Það nýjasta er að allar úteyjar Vestmannaeyja, 14 talsins, verði skilgreindar sem þjóðlendur og þar með eign ríkisins. Ef lögin um sölu ríkisins á öllu landi í Vestmannaeyjum í eigu þess til Vestmannaeyjabæjar árið 1960 eru skoðuð, og þær breytingar sem á þeim urðu í meðferð þingsins þar sem fyrst átti að selja land ríkisins á Heimaey en því var breytt í allt land ríkisins í Vestmannaeyjum, er augljóst að hér er ríkið að fara í óþarfan og óskiljanlegan leiðangur með tilheyrandi fjárútlátum,” sagði Karl Gauti í ræðu sinni og hélt áfram:
„Líkja má þessu við sölu á húsi þar sem seljandi kemur nokkrum árum seinna og segist ekki hafa selt bílskúrinn. Fjármunum og orku ríkisins hlýtur að vera unnt að verja í þarfari verkefni en þetta. Og spyrja má: Hver er tilgangurinn? Hver er tilgangurinn? Við þingmenn Miðflokksins vöruðum sterklega við þeim breytingum sem gerðar voru á regluverki óbyggðanefndar á sínum tíma og enn og aftur kemur í ljós hverjar afleiðingarnar eru. Það virðist vera gengið fram með eins íþyngjandi hætti og nokkur kostur er og sýnist á öllu að hér sé gengið freklega fram og áfram í þessari helstu eignaupptöku síðari tíma hjá hinu opinbera.
Hvet ég fjármálaráðherra til að stíga skref til baka og láta af þessari óhæfu. Miðflokkurinn hefur barist gegn þessu áður en lögunum var breytt og gerir enn. Varnaðarorðin hafa raungerst og nú er mál að linni. Er þetta ekki komið gott, fjármálaráðherra?” spurði þingmaðurinn.
Þessu tengt:
Fjórði fjármálaráðherrann gerir atlögu að Eyjamönnum
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst